Lögregluyfirvöld notuðu til þess táragas og þrýstivatnsbyssur.
Breiðgatan hefur nú verið opnuð á ný fyrir bílaumferð. Mótmælendur hafa aðallega tekið sér stöðu á Champs-Elysees síðustu fjóra laugardaga til að mótmæla efnahagsstefnu Emmanuels Macron Frakklandsforseta.
Í fyrstu beindust mótmælin einkum að hækkuðum álögum á eldsneyti en hafa síðan þá þróast út í almenna óánægju með áherslur Macrons og ríkisstjórnarinnar.
Lögreglan fyrirskipaði mótmælendum að klæða sig úr gulu öryggisvestunum sem eru tákn mótmælanna.
Í dag komu mótmælendur saman fimmta laugardaginn í röð til að láta í sér heyra en færri mættu í dag en síðasta laugardag og þá var einnig minna um ofbeldi og átök.
Franska lögreglan segir að um 3.000 manns hefðu mótmælt í dag sem eru þá töluvert færri en þeir 10.000 mótmælendur sem fylktu liði síðasta laugardag. Þá voru 96 mótmælendur handteknir í dag vegna óeirða og skemmdarverka.
Ætla má að fækkunin stafi af viðbrögðum Frakklandsforseta sem í vikunni ákvað að koma til móts við kröfur mótmælenda með því að hækka lágmarkslaun og afnema skerðingar á ellilífeyrisþega svo eitthvað sé nefnt.

