Erlent

Ríkur stuðningur við fangelsaða blaðamenn Reuters

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Meðferð blaðamannanna er reglulega mótmælt.
Meðferð blaðamannanna er reglulega mótmælt. Nordicphotos/AFP
Stuðningsmenn mjanmörsku Reuters-blaðamannanna Wa Lone og Kyaw Soe Oo söfnuðust saman í miðborg Yangon í gær. Fjöldi fólks birti stuðningsyfirlýsingar á netinu og fjölskyldur og vinir blaðamannanna kölluðu eftir því að þeir yrðu leystir úr haldi. BBC greindi frá.

Blaðamennirnir tveir voru handteknir í desember fyrir ári og síðar dæmdir í sjö ára fangelsi fyrir brot gegn lögum um ríkisleyndarmál. Þeir höfðu verið að vinna að umfjöllun um fjöldamorð á tíu Róhingjum í bænum Inn Dinn í Rakhine-ríki Mjanmars. Rannsakendur á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa sakað mjanmarska herforingja um að standa að þjóðarmorði í Rakhine. Blaðamennirnir hafa alltaf haldið fram sakleysi sínu, sagt að lögregla hafi uppdiktað sekt þeirra.

Wa Lone og Kyaw Soe Oo voru á meðal þeirra ofsóttu blaðamanna sem Time útnefndi manneskjur ársins.

Aung San Suu Kyi, handhafi friðar­verðlauna Nóbels, ríkisráðgjafi og þjóðarleiðtogi Mjanmar, hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir mál blaðamannanna og vissulega hið meinta þjóðarmorð sömuleiðis. Suu Kyi hefur neitað að náða mennina og varið réttmæti dómsins. Sagt blaðamennina hafa brotið landslög.

„Fyrir ári voru Wa Lone og Kyaw Soe Oo, blaðamenn Reuters, handteknir í tálbeituaðgerð lögreglu sem ætlað var að trufla rannsókn þeirra á fjöldamorði í Mjanmar. Sú staðreynd að þeir eru enn í fangelsi fyrir glæp sem þeir frömdu ekki er þess valdandi að stórt spurningarmerki er sett við mjanmarskt lýðræði og tjáningarfrelsi,“ sagði í yfirlýsingu sem Stephen J. Adler, ritstjóri Reuters,­ sendi frá sér.


Tengdar fréttir

Fordæma fangelsun blaðamanna

Samtök bæði lögfræðinga og blaðamanna í Mjanmar afhentu Win Myint, forseta ríkisins, bréf í gær þar sem lýst var áhyggjum af sakfellingu og fangelsun tveggja blaðamanna Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×