Innlent

Erfitt að minnka mengun vegna sprengiefnasölu hjálparsveita

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Í mörg horn er að líta á gamlárskvöldi í Kópavogi.
Í mörg horn er að líta á gamlárskvöldi í Kópavogi. Fréttablaðið/Vilhelm
Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt brennustæði á gamlárskvöld í Gulaþingi og í Smárahvammi. Við það tilefni rifjaði Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, upp að mengunarmælingar í Dalsmára hefðu leitt í ljós Evrópumet í svifryki um síðustu áramót.

Vitnar Sigurbjörg þar til skýrslu sem lögð var fram í bæjarráði Kópavogs um miðjan september síðastliðinn þar sem vísað var til þeirrar niðurstöðu háskólaprófessora að líklega hefði klukkustundargildi svifryksmengunar á brennustaðnum við Dalsmára verið það hæsta sem mælst hefði í Evrópu. Lagt var til að fundinn yrði nýr staður fyrir brennu og flugeldasýningu sem ekki væri í dalverpum og í nálægð við íbúabyggð.

„Það er óskynsamlegt að safna fólki saman við slíkar aðstæður og því er mikilvægt að finna brennunni nýjan stað, ef ekki þessi áramót þá í það minnsta þau næstu,“ bókaði Sigurbjörg. „Svifryk getur borist í blóðstraum og lungu fólks, og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir því.“

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, bókaði þá að halda þyrfti því til haga að Evrópumetið hefði verið sett í kringum miðnætti en ekki á þeim tíma sem brennan er haldin.

„Hins vegar er erfitt að sjá hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að flugeldum sé skotið upp á þessum tímamótum nema með inngripi stjórnvalda og þess áhrifaþáttar að björgunarsveitir þurfa enn að fjármagna sig með sölu á mengandi sprengiefni,“ segir í bókun Karenar.




Tengdar fréttir

Margir vilja banna flugelda

Meirihluti landsmanna er fylgjandi því að settar verði strangari reglur um notkun flugelda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×