Samninganefndir VR og SA hafa átt nokkra fundi og hittast aftur í dag. „Við ætlum að taka langan fund og markmiðið er að reyna að komast til botns í því eins fljótt og hægt er hvort við sjáum til lands eða ekki. Þetta verða mjög flóknir samningar en það er verið að vinna á fullu. Svo er bara spurning hvort við þurfum á einhverjum tímapunkti að endurskoða okkar nálgun.“
Ragnar Þór segir aðila aðeins farna að ræða launaliðinn en í leiðinni sé unnið að praktískum atriðum og bókunum. „Við erum að koma hópavinnu í gang og það eru ýmis mál komin í vinnslu hjá sérfræðingum VR og SA. Varðandi aðkomu stjórnvalda förum við vonandi að sjá eitthvað til sólar í vinnu skattahópsins sem er í gangi.“
Ragnar Þór segist enn leggja mikla áherslu á að samið verði til þriggja ára. „Það er stemning í samfélaginu fyrir átökum eins og við sáum í könnun MMR. Það er stemning með nýrri forystu núna og ég er hræddur um það að hún gæti tapast að einhverjum hluta ef við fylgjum ekki þessari kröfu okkar um lengri samning vel eftir. Lengri samningi fylgja að mínu mati meiri líkur á raunverulegum kerfisbreytingum.“
Það gæti verið lykillinn að því að opinberu stéttarfélögin verði með í lengri sátt á vinnumarkaði. „Ég er ekki hlynntur því ástandi sem verið hefur að félögin eru alltaf að semja til tólf mánaða með sex mánaða millibili. Við gerum samning, svo koma aðrir hópar og vilja meira. Ég held að lykillinn að sáttinni liggi fyrst og fremst í raunverulegum kerfisbreytingum til að reyna að bæta hér lífskjör fólks á kannski mun breiðari skala en gert hefur verið áður.“
Ræða þurfi gjaldmiðilsmálin
Aðspurður segir Ragnar Þór að staða gjaldmiðilsins hafi ekki verið rædd innan VR eða ASÍ en krónan hefur veikst töluvert undanfarið. „Við vitum það að gjaldmiðillinn okkar hefur verið notaður í þágu ríkasta minnihluta þjóðarinnar. Það er okkar hópur sem borgar fyrir sveiflur á gjaldmiðlinum en svo eru aðrir hópar í okkar samfélagi sem njóta á móti góðs af því.“Hann segir að breytingar í gjaldmiðilsmálum verði ekki að veruleika innan tímaramma þeirra kjarasamninga sem nú eru til umræðu. Hins vegar sé æskilegt að ræða þessi mál til framtíðar.
„Þetta er það mikið hagsmunamál almennings og okkar félagsmanna að það væri í rauninni fáránlegt ef verkalýðshreyfingin væri ekki að velta þessum málum upp og ræða.“