Sport

Hreinn tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hreinn Halldórsson var heiðraður á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld.
Hreinn Halldórsson var heiðraður á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld. mynd/ísí
Hreinn Halldórsson var í kvöld tekinn inn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Hreinn er átjándi einstaklingurinn sem fær sæti í Heiðurshöllinni.

Hreinn var kúluvarpari og varð fyrstur Íslendinga til þess að vinna til verðlauna á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum innahúss. Hann gerði það þann 13. mars 1977 á Spáni. Þá vann hann gullverðlaun fyrir að kasta kúlunni 20,59 metra.

Strandamaðurinn varð þrisvar valinn Íþróttamaður ársins, árin 1976, 1977 og 1979.

Hreinn setti Íslandsmet í kúluvarpi árið 1977 sem átti eftir að standa í þrettán ár þegar hann kastaði kúlunni 21,09 metra í Stokkhólmi.

Árið 1979 átti Hreinn sjötta besta afrek frjálsíþróttaheimsins þegar hann varpaði kúlunni 20,69 metra.

Hreinn lagði kúluna á hilluna árið 1982 og hefur síðustu áratugi verið búsettur á Egilsstöðum.

Hreinn er átjándi íþróttamaðurinn sem kemst inn í Heiðurshöllina en þar eru fyrir Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson, Vala Flosadóttir, Jóhannes Jósefsson, Sigurjón Pétursson, Albert Guðmundsson, Kristín Rós Hákonardóttir, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Guðmundsson, Gunnar A. Huseby, Torfi Bryngeirsson, Ríkharður Jónsson, Sigríður Sigurðardóttir, Guðmundur Gíslason, Geir Hallsteinsson, Jón Kaldal og Skúli Margeir Óskarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×