Handbolti

Guðmundur: Ég þarf að fá ákveðin svör

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur segir mönnum til á æfingu.
Guðmundur segir mönnum til á æfingu. Fréttablaðið/Eyþór
Ísland hefur á morgun lokaundirbúning sinn fyrir HM í handbolta með formlegum hætti þegar að strákarnir okkar mæta Barein í æfingaleik í Laugardalshöllinni. Það verður fyrri æfingaleikur liðanna en þau mætast líka á sunnudag.

Guðmundur Guðmundsson hefur verið að fá leikmenn til landsins síðustu daga og reiknar með að geta stillt upp sínu sterkasta liði á sunnudag. Þó hóf hann æfingar fyrir jól með þeim leikmönnum sem hafa verið hér á landi og sagði hann við íþróttadeild í dag að þær hefðu gengið vel.

Staða leikmanna er góð að sögn Guðmundar en ljóst er að hann þarf að skera niður um 3-4 leikmenn úr 20 manna æfingahópi sínum áður en haldið verður til Þýskalands, þar sem Ísland hefur leik á HM þann 11. janúar.

„Þetta verður tvískipt,“ sagði Guðmundur um leikina tvo gegn Barein. „Á morgun munum við prófa leikmenn, jafnvel í nokkrum stöðum - til að mynda hjá leikstjórnendum. Við munum gefa þeim tækifæri til að spreyta sig. Við erum líka að skoða miðjuna í vörninni og línumennina,“ sagði þjálfarinn og ljóst að í þessum stöðum ríkir helst samkeppni um sæti í lokahópi Íslands.

„Það eru margir um hituna en menn eru í mismunandi ásigkomulagi og við verðum bara að taka stöðuna eftir leikinn á morgun,“ segir Guðmundur og bætir við að hann þurfi að fá ákveðin svör úr leik morgundagsins. „Í seinni leiknum munum við svo stilla upp okkar sterkasta liði miðað við þá leikmenn sem við verðum með þá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×