Þetta kemur fram í ályktun sem LSS sendi frá sér í morgun. Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í lok síðasta árs að til stæði að fækka sjúkraflutningamönnum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands úr 27 í 23.
Í ályktun LSS segir að afleiðingar af fyrirhugaðri fækkun sjúkraflutningamanna séu óþekktar en að ljóst sé að viðbragð muni skerðast. Þá sé líklegt að útkallstími lengist.
„Frekari afleiðingar er aukið álag á þá starfsmenn sem sinna þjónustunni og í allri umræðu um kulnun og streitu ganga svona aðgerðir þvert á það markmið að skapa heilbrigt vinnuumhverfi.
Hvetur LSS yfirstjórn HSU til að endurskoða þessa ákvörðun og óskar jafnframt eftir aðkomu heilbrigðisráðuneytis til að setja viðmiðunarreglur um staðsetningu starfsstöðva og lágmarksviðmið fyrir staðarvakt sjúkraflutninga,“ segir í ályktuninni.
Rekstarvandi
Nýlega var greint frá því að Heilbrigðisstofnun Suðurlands glími við mikinn rekstrarvanda og að halli ársins 2018 stefndi í 200 milljónir króna.Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sagði breytingarnar á rekstrinum nauðsynlegar í ljósi rekstrarhalla stofnunarinnar. Fækkunin ætti þó ekki að hafa áhrif á viðbragðstíma á svæðinu.