Fjöldi ökumanna sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af í vikunni sem voru á leið með börn sín í leikskólann í Reykjanesbæ var með öryggisbúnað í ólagi. Í sumum tilfellum voru börnin laus í bílnum. Varðstjóri á svæðinu segir þetta mikið áhyggjuefni.
Síðustu daga hefur lögreglan á Suðurnesjum haft afskipti af rúmlega áttatíu ökumönnum á leið með börn sín í leikskólann til að kanna notkun þeirra á bílstólum og bílbeltum. Í ljós kom að of margir voru með þau mál í ólagi.
Fyrsta daginn voru tæplega þrjátíu ökumenn stöðvaðir og var um helmingur þeirra sem ekki notaði tiltekinn öryggisbúnað. Sigvaldi Lárusson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, segir þetta hafa komið sér gríðarlega á óvart og brýnt að fólk hugi að öryggi barnanna sinna sama hversu stutt vegalengdin er.
„Í gær var þetta meira en helmingur sem var með öryggismál í ólagi. Í morgun var þetta talsvert betra en alls ekki nógu gott,“ segir Sigvaldi.
Vegna þessarar sláandi niðurstöðu mun lögreglan herða eftirlit við leik- og grunnskóla bæjarins. Sigvaldi segir vandan snúast um að foreldrarnir séu ekki í beltum, gleyma að setja börnin í belti, eru ekki með þau í bílstólum og þá eru þau bara sum laus í bílnum.
„Flestir eru að bera því við að þetta eru bara stuttar vegalengdir. Ég á heima bara þarna og er að skjótast bara hingað. En slys þurfa engar vegalengdir,“ segir Sigvaldi. Foreldrar verði að festa börnin í bílnum. Hann segir börnin dýrmætasta farm sem hver og einn ekur um með.
„Þú hlýtur að vilja passa þennan dýrmæta farm,“ segir Sigvaldi Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.
Innlent
Með augun á leikskólum á Suðurnesjum vegna beltaleysis
Tengdar fréttir
Alltof mörg leikskólabörn í Reykjanesbæ ekki í bílbelti
Allt of mörg börn í ónefndum leikskóla í Reykjanesbæ voru ekki í bílbeltum eða öðrum viðurkenndum búnaði þegar forráðamenn þeirra óku þeim í skólann í morgun.