Handbolti

Guðjón Valur útilokar alfarið að spila á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Baldur
Guðjón Valur Sigurðsson ætlar ekki að halda neinum möguleikum opnum um að koma til móts við íslenska landsliðið þegar liðið er á heimsmeistaramótið í handbolta, sem hefst í Þýskalandi og Danmörku á morgun.

Guðjón Valur þurfti að draga sig úr íslenska landsliðinu í gær vegna hnémeiðsla og hann sagði í samtali við íþróttadeild í dag að væri ekki að stefna að því að geta komið inn í hópinn á síðari stigum.

„Ég er ekki að halda neinum möguleikum opnum. Annars hefði ég mætt til Þýskalands og bitið á jaxlinn,“ sagði hann en öllum liðum á HM er heimilt að gera þrjár breytingar á liði sínu á meðan keppninni stendur.

„Ef ég væri fær um að spila, þá væri ég þar. En ég er það ekki. Ég ber fullt traust til liðsins, þjálfarans og strákanna - Stebba og Bjarka í horninu til að þeir klári þetta með stæl. Ég ætla ekki að vera hangandi yfir þeim eins og einhver grár úlfur eða draugur. Ég ætla ekki að vonast til þess að einhver standi sig ekki svo það sé hægt að kalla mig inn. Það er alls ekki á dagskrá hjá mér,“ sagði hann enn fremur.

Guðjón Valur segist hafa fundið fyrir hnémeiðslum í lengri tíma en að meiðslin hafi orðið það slæm á æfingamótinu í Noregi um helgina að hann hafi þurft að játa sig sigraðan.

„Ég ætla að vera aðdáandi númer eitt og vona að þeim gangi frábærlega,“ sagði Guðjón Valur en nánar verður rætt við hann í Sportpakkanum klukkan 19.10 á Stöð 2 í kvöld.


Tengdar fréttir

Bara einn silfurstrákur eftir í landsliðinu

Í ágúst síðastliðnum voru liðin tíu ár frá því að íslenska handboltalandsliðið náði sínum besta árangri frá upphafi með því að vinna til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×