Skoðun

Nýársheit um yfirlætislausa umræðu

Flosi Eiríksson skrifar
Mikil umræða er nú eðlilega um stöðuna í kjaramálum í landinu. Þar birtast sjónarmið um hvert svigrúmið sé til kjarabóta, aðkomu ríkisvaldsins, æskilegan jöfnuð og margt fleira. Eðlilega hafa hugmyndir og áherslur verkalýðshreyfingarinnar verið mikið í þeirri umræðu.

Sumt af umræðunni er á kunnuglegum nótum. Eðlilegar og réttmætar hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar eru úthrópaðar með flestum þeim sterkustu lýsingarorðum sem finnast og ýmsum finnst þeir vera þess umkomnir að setja ofan í við forystufólk launamanna af yfirlæti. Hugmyndir um að hækka lægstu launin, efla húsnæðiskerfið og bæta skattkerfið virðast fela í sér sérstaka árás á íslenskt samfélag, þeir sem mæla fyrir kjarabótum eru „ólæsir á hagfræðilögmál“ og virðast ekki skilja „hvað fólk hefur það að meðaltali gott“ og svo eru vangaveltur um að eitthvað sem viðkomandi finnst „róttækni í orðum“ geti „hæglega orðið til þess að krónan veikist enn meira“. Við þetta bætist svo sú fullyrðingagleði að forystufólkið tali ekki í umboði sinna félagsmanna þegar farið er fram á meiri jöfnuð í samfélaginu og aukinn kaupmátt þeirra sem eru á lægstu launum. Í grautinn er síðan blandað ódýrri sagnfræði um verðbólgu hér á árum áður, og að hún hafi verið almennu launafólki að kenna!

Engin tilraun er gerð til að ræða málið efnislega, skilja hvernig launafólki líður og úr hvaða jarðvegi kröfurnar eru sprottnar. Allt er þó sagt undir því yfirskyni að nú sé mikilvægt að tala varlega, gæta hófs, efna ekki til ófriðar og svo framvegis og framvegis. Sú krafa um hófstillingu virðist þó bara eiga við um verkalýðshreyfinguna og talsmenn hennar, en ekki álitsgjafana sjálfa. Fjármálaráðherra taldi það svo einhverra hluta vegna hjálplegt í umræðu milli launafólks og atvinnurekenda að setja fram hálfgerðar hótanir vegna mögulegra skattkerfisbreytinga, sem sýnir undarlegt stöðumat. Það væri ágætt nýársheit þeirra sem hvað mest predika hófstillingu og málefnalega umræðu, að þeir taki það líka til sín og fjalli um hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar og kröfur með sanngjörnum hætti?




Skoðun

Sjá meira


×