Erlent

Indverskar konur mynduðu 620 kílómetra mennska keðju

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að um fimm milljónir kvenna hafi tekið þátt í að mynda keðjuna.
Talið er að um fimm milljónir kvenna hafi tekið þátt í að mynda keðjuna. Getty/Hindustan Times
Indverskar konur í indverska ríkinu Kerala mynduðu 620 kílómetra langa mennska keðju til stuðnings kynjajafnrétti. Deilt hefur verið um aðgang þeirra að Sabarimala-hofinu. BBC greinir frá.

Í gegnum tíðina hefur konum á aldrinum tíu til fimmtíu ára ekki verið hleypt inn í hofið. Ástæðan er sú að konur á „blæðingaaldri“ máttu ekki iðka trú sína í hofinu.

Hæstiréttur Indlands komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að ekki væri grundvöllur fyrir banninu og að veita þyrfti konum á hinu umrædda aldursbili aðgang að hofinu.

Ákvörðun réttarins þykir hins vegar umdeild í sumum hornum Indlands, ekki síst innan flokks þjóðernissinnaðra hindúa, BJP, sem er við völd í Indlandi.

Samkvæmt hindúatrú eru konur á blæðingum taldar vera „óhreinar“ en þó er sjaldgæft að konum á fyrrnefndu aldursbili sé alfarið bannað að iðka trú sína í hofum hindúa. Flest láta sér nægja að meina konum aðgang á meðan þær eru á blæðingum. Þess á milli er þeim frjálst að koma í hofin.

Fáar konur hafa hætt sér í Sabarimala-hofið sökum mikilla mótmæla í Kerala sem rekja má til ákvörðunar Hæstaréttar Indlands.

Talið er að um fimm milljónir kvenna hafi tekið þátt í keðjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×