Handbolti

Björgvin: Erum sárir en getum samt labbað stoltir af velli

Anton Ingi Leifsson skrifar
„Þetta var þungt og erfitt í síðari hálfleik,“ sagði Björgvin Páll Gústafsson, markvörður Íslands, eftir tapið gegn Þýskalandi á HM í handbolta í kvöld.

„Við vorum að spila gegn heimsklassa liði með tuttugu þúsund manns á bakinu en við héldum haus og náðum að spila fáránlega góðan seinni hálfleik.“

Íslenska liðið er ekki gamalt og segir Björgvin að það sé í raun galið að svona ungt lið sé að halda í við Þýskaland allan tímann en Þjóðverjarnir voru studdir af tuttugu þúsund manns í Köln í kvöld.

„Við vorum inn í leiknum nánast allan tímann fyrir utan restina. Ég hef spilað marga leiki við Þjóðverjana en að halda haus fyrir framan tuttugu þúsund manns með meðalaldurinn 24 ára er galið.“

„Það sýnir bara styrkinn hjá okkur. Við erum sárir en getum samt labbað stoltir af velli.“

Andreas Wolff, markvörður Þýskaland, reyndist Íslandi erfiður í kvöld og segir Björgvin að nokkrar markvörslur hans hafi verið ótrúlegar.

„Hann á fimm glórulausa bolta sem hann varði. Hann á allt hrós skilið. Þegar vörnin er svona sterk í dag með hann fyrir aftan er þetta ótrúlega erfitt.“

„Við þurftum því að vinna þetta varnarlega sem mér fannst við gera lengi en við vorum dálítið mikið útaf í fyrri hálfleik. Þeir voru dálítið að klippa okkur sundur og saman.“

„Heilt yfir erum við að spila góðan leik en þú þarft að eiga fullkoman leik til þess að vinna Þjóðverja á heimavelli,“ sagði Björgvin að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×