Lögfræðingurinn Michael Cohen var í desember síðastliðnum dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar, meðal annars fyrir það að hafa logið að þingnefnd varðandi fyrirætlanir um byggingu Trump-turns í Moskvu í aðdraganda forsetakosninganna 2016.
Cohen fór fyrir viðræðum um bygginguna fyrir hönd Donald Trump sem þá var í miðju forsetaframboði. Á þeim tíma þvertók Trump fyrir það að eiga í viðskiptum á rússneskri grundu. Samkvæmt uppljóstrunum Buzzfeed News greindi Cohen reglulega frá framgangi hans í viðræðunum. Dóttir Bandaríkjaforseta, Ivanka Trump, elsti sonur hans, Donald yngri, og forsetinn sjálfur munu hafa fengið upplýsingarnar frá Cohen.
Cohen játaði í nóvember að hafa logið að þingnefndinni um málið en hann tjáði henni að viðræðum í Rússlandi hefði verið hætt í janúar 2016, nokkrum mánuðum áður en viðræðum var í raun slitið.
Buzzfeed hefur það eftir nafnlausum heimildum sínum að Cohen hafi uppljóstrað því við saksóknara að Trump hafi skipað honum að ljúga með þessum hætti, til þess að tengsl Trump við Rússa á þeim tíma kæmu ekki í ljós. Nú hafa þingmenn Demókrata ákveðið að hefja rannsókn vegna fréttaflutnings Buzzfeed News.
Í frétt CBS um málið kemur fram að einn talsmanna Hvíta Hússins, Hogan Gidley, hafi ekki viljað neita ásökunum á hendur forsetanum með beinum hætti í dag. Gidley sagði það þó furðulegt að taka Buzzfeed trúanlegu og sagði þetta enn eitt dæmið um falsfréttir sem forsetinn þarf að þola.
Trump hefur ekki tjáð sig um málið við fjölmiðla en á Twitter síðu hans vildi hann minna fylgjendur sína á óheiðarleika Cohen sem væri að ljúga til þess að minnka refsinguna sem hann þarf að þola.
Kevin Corke, @FoxNews “Don’t forget, Michael Cohen has already been convicted of perjury and fraud, and as recently as this week, the Wall Street Journal has suggested that he may have stolen tens of thousands of dollars....” Lying to reduce his jail time! Watch father-in-law!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 18, 2019