Handbolti

Jafntefli dugar íslenska liðinu í dag

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Akureyringurinn Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í íslenska liðinu ásamt Stefáni Rafni Sigurmannssyni í leiknum gegn Japan.
Akureyringurinn Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í íslenska liðinu ásamt Stefáni Rafni Sigurmannssyni í leiknum gegn Japan. Fréttablaðið/afp
Það verða hreinir úrslitaleikir í öllum þremur leikjunum í B-riðli sem Ísland er í á Heimsmeistaramótinu í handbolta í dag. Fyrir lokaumferðina eru Króatía og Spánn með fullt hús stiga og mætast þau í kvöld í leik um efsta sætið og um leið að fara með fullt hús stiga í milliriðlana.

Íslensku þjálfararnir Aron Kristjánsson og Dagur Sigurðsson leiða saman hesta sína í fyrsta leik dagsins þar sem fimmta sæti riðilsins verður í boði en augu Íslendinga verða á leik Íslands og Makedóníu í Ólympíuhöllinni í München í dag.

Eftir torsóttan sigur Íslands á Japan í gær og tap Makedóníu gegn Spáni eru liðin jöfn að stigum. Bæði hafa unnið tvo leiki og tapað tveimur fyrir leikinn en Ísland er í vænlegri stöðu.

Stórsigur Íslands gegn Barein á mánudaginn gerir það að verkum að íslenska liðið er með mun betri markatölu en Makedónía fyrir leik liðanna síðar í dag sem þýðir að Íslandi dugar jafntefli í kvöld.

Makedónía vann níu marka sigur á Japan í fyrsta leik liðanna á HM og fylgdi því eftir með fimm marka sigri á Barein en eftir tapleiki gegn Spáni og Króatíu er markatala þeirra sex mörk í mínus á meðan Ísland er með ellefu mörk í plús.

Þetta verður sextánda viðureign Íslands og Makedóníu og hefur Ísland átt góðu gengi að fagna gegn andstæðingum dagsins. Í fimmtán leikjum hefur Ísland unnið ellefu sinnum, Makedónía þrisvar og einu sinni skildu liðin jöfn, á síðasta HM sem fór fram í Frakklandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×