Handbolti

Dagur: Þeir voru ekkert spes

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari Japan, var ánægður með leik sinna manna en var ekki hrifinn af íslenska liðinu sem átti dapran leik gegn Japönum á HM í handbolta í dag.

Japan stóð í Íslandi í dag og gaf ekki tommu eftir. Liðið hefur tekið miklum framförum undir stjórn Dags og hann segir að það hafi vantað aðeins upp á í dag.

„Það vantaði töluvert upp á til þess að klára svona leiki. Ætli að það sé ekki önnur tvö ár í að klára svona sterka mótherja,“ sagði Dagur í samtali við Tómas Þór Þórðarson í Ólympíuhöllinni í leikslok.

„Við gerðum mjög margt gott í þessum leik og erum búnir að vera að spila skynsamlega. Það er erfiðara að vinna okkur og það er jákvætt.“

Dagur segir að það sé komið meira sjálfstraust í liðið og honum líkar það vel.

„Það gefur liðinu sjálfstraust að vita það að ef við stjórnum leiknum sjálfir þá fáum við ekki skell. Það gefur liðinu sjálfstraust.“

„Ég er ánægður með trúna. Við erum ekkert að breyta planinu þótt að eitthvað hafi gerst á undan. Við komumst aftur inn í leikinn en fórum illa með sex á móti fimm og nokkra aðra sénsa sem við áttum að nýta.“

„Við vorum bara spila gegn góðum mótherja og þeir refsuðu okkur fyrir það,“ en Dagur talaði hreint út aðspurður um hvernig honum hafi fundist íslenska liðið í dag.

„Þeir voru ekkert spes í dag. Ég er að vona að þeir hafi verið komnir aðeins með hausinn í Makedóníu-leikinn. Við erum að fara í leik gegn Barein svo það eru svakalegir leikir hérna á morgun.“

„Ég er að vona að þeir hafi aðeins verið komnir þangað en það var klárlega smá hik á þeim og ekki sama flæði og hefur verið. Ég ætla að vona að þeir húrri sig í gang,“ sagði Dagur að lokum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×