Handbolti

Hægt að standa í þeim bestu ef menn æfa varnarleikinn og bæta á sig kílóum

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Elvar Örn Jónsson hefur spilað frábærlega á HM.
Elvar Örn Jónsson hefur spilað frábærlega á HM. vísir/getty
Ungu strákarnir í íslenska landsliðinu í handbolta hafa stimplað sig rækilega inn á heimsmeistaramótinu það sem af er, sérstaklega í varnarleiknum sem hefur verið í heildina mjög fínn.

Elvar Örn Jónsson, sem er að spila sitt fyrsta stórmót, er efstur í íslenska liðinu í löglegum stöðvunum með 8,3 að meðaltali í leik en Selfyssingurinn hefur spilað bakvörðinn frábærlega í íslensku vörninni.

Haukamaðurinn Daníel Þór Ingason, sem er einnig að þreyta frumraun sína á stórmóti, er annar með 4,7 löglegar stöðvanir að meðaltali í leik og línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson er fjórði með fjórar slíkar.

Í þriðja sæti er reynsluboltinn Ólafur Gústafsson, aðal varnarmaður íslenska liðsins. Hann er með 4,3 stöðvanir í leik þrátt fyrir að spila lítið á móti Barein en Guðmundur Guðmundsson er búinn að gera FH-inginn uppalda að lykilmanninum í hjarta varnarinnar.

Íslenksa vörnin hefur verið fín með ungu strákana í stuði.vísir/getty
Ólafur spilar með KIF Kolding í Danmörku en stutt er síðan að hann var heima í Olís-deildinni að spila með Stjörnunni og þar mætti hann til dæmis strákum eins og Elvari og Daníel. Honum kemur ekkert á óvart hversu vel þeir eru að standa sig á stóra sviðinu.

„Þetta kemur mér ekkert á óvart. Þeir eru bara að uppskera eins og þeir hafa sáð,“ segir Ólafur en hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi íslenska liðsins í gær.

Hann nefnir sérstaklega Selfyssinginn Elvar Örn Jónsson sem hefur spilað frábærlega á mótinu til þessa. Það var ekki að sjá að hann væri enn að spila í Olís-deildinni þegar að hann var að kljást við suma af bestu leikmönnum heims í stórliðum Króatíu og Spánar.

„Elvar er búinn að vera frábær í vörninni. Hann er örugglega búinn að leggja mikið á sig í lyftingarherberginu og er líkamlega sterkur. Þetta kemur mér ekkert á óvart. Ef menn eru duglegir að æfa varnarleikinn og bæta á sig kílóum er hægt að standa í svona mönnum,“ segir Ólafur Gústafsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×