Nú er ljóst að fimmtán eru látnir hið minnsta eftir að hryðjuverkasamtökin Al Shabab gerðu árás á lúxushótel í Naíróbí í Kenía í gær.
Svo virðist sem árásarmennirnir hafi að mestu verið yfirbugaðir en fréttamenn á staðnum hafa þó heyrt skothvelli og sprengingar nú í morgunsárið.
Nokkrir erlendir ferðamenn eru sagðir á meðal hinna látnu og bandaríska utanríkisráðuneytið hefur þegar staðfest að einn Bandaríkjamaður liggi í valnum.
Árásin hófst um hádegisbil að íslenskum tíma í gær þegar fjórir vígamenn hentu handsprengjum að farartækjum fyrir utan hótelið áður en þeir ruddust þar inn, þar sem einn þeirra sprengdi sig í loft upp. Hinir þrír hófu síðan skothríð inni á hótelinu og tóku fólk í gíslingu.
Lögreglan í Naíróbí umkringdi hótelið í gær og um klukkan átta gaf hún það út að tökum hefði verið náð á ástandinu. Þó liggur enn ekki fyrir hvað varð um árásarmennia og skothríðin í morgun bendir til að enn leiki einhverjir þeirra lausum hala.

