Handbolti

Strákarnir hans Dags eru prúðasta liðið á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Japanar fagna marki en Dagur er farinn að pæla í næstu vörn.
Japanar fagna marki en Dagur er farinn að pæla í næstu vörn. Getty/TF-Images
Íslenska handboltalandsliðið mætir því japanska á HM í handbolta í dag og það má ekki búast við sama ruddaskap og í mörgum brotum Bareinanna í síðasta leik.

Þegar háttvísitölfræði Alþjóðahandknattleikssambandsins er skoðuð frá fyrstu þremur umferðum riðlakeppninnar kemur í ljós að Japan er með prúðasta liðið í keppninni.

Strákarnir hans Dags Sigurðssonar hafa aðeins fengið 21 refsistig eða 7,0 að meðaltali í leik.

Japönsku leikmennirnir hafa bara átta sinnum verið reknir útaf í tvær mínútur í fyrstu þremur leikjunum og liðið hefur auk þess aðeins fengið fimm gul spjöld.

Bareinar eru aftur á móti þriðja grófasta lið keppninnar á eftir Argentínu og Rússlandi. Barein er eina liðið í keppninni sem hefur fengið tvö rauð spjöld en þau komu bæði í leiknum á móti Íslandi.

Íslenska landsliðið er í 14. sæti á þessum lista með 36 refsistig eða 12,0 að meðaltali í leik. Ísland hefur fengið fimmtán brottrekstra en ekkert rautt sjald.

Af hinum Íslendingaliðunum má nefna að Austurríki (undir stjórn Patreks Jóhannessonar) er í 15. sæti og Svíþjóð (undir stjórn Kristjáns Andréssonar) er í 10. sæti.

Prúðustu liðin á HM

(Eftir þrjá fyrstu leikina)

1. Japan 21 refsistig (7,0 í leik)

2. Króatía 22 refsistig (7,3)

3. Spánn 23 refsistig (7,7)

3. Makedónía 23 refsistig (7,7)

5. Noregur 24 refsistig (7,7)

14. Ísland 36 refsistig (12,0)

Grófustu liðin á HM

(Eftir þrjá fyrstu leikina)

24. Argentína 53 refsistig (17,7)

23. Rússland 45 refsistig (15,0)

22. Barein 43 refsistig (14,3)

21. Serbía 42 refsistig (14,0)

20. Katar 41 refsistig (13,7)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×