Handbolti

Arnar Freyr: Hef ekki verið að finna mig í sóknarleiknum

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Arnar Freyr Arnarsson á mikið inni í sóknarleiknum að eigin sögn.
Arnar Freyr Arnarsson á mikið inni í sóknarleiknum að eigin sögn. vísir/getty
Arnar Freyr Arnarsson, línumaður íslenska landsliðsins í handbolta, fagnar hvíldardeginum sem strákarnir eiga í dag en þeir eru að hlaða batteríin fyrir tvo mikilvæga leiki á móti Japan á morgun og Makedóníu á fimmtudaginn.

Strákarnir eru búnir að spila þrjá hörku leiki á fjórum dögum og eiga nú tvo leiki á tveimur dögum áður en kemur að baráttunni í milliriðlinum í Köln, það er að segja ef okkar menn komast þangað.

„Þetta eru rosalega kærkomnir dagar. Það er gott að fá aðeins að hvíla. Það er gott aðeins að geta andað,“ segir Arnar Freyr, en hversu erfitt er það að spila svona þétt?

„Það er frekar klikkað að spila tvo leiki í röð og það var ekki sólarhringur á milli leikja. Þetta er smá klikkun en svona er þetta og maður verður bara að fíla það,“ segir hann.

Handbolti er ekki auðveldasta íþrótt í heimi. Menn láta vel finna fyrir sér og þurfa mikið að hlaupa og djöflast en hvar safnast mestu eymslin fyrir?

Arnar Freyr stekkur inn af línunni.vísir/getty

Vill gera betur í sóknarleiknum

„Maður verður bara þreyttur í löppunum og svona. Þetta eru mikil átök og það er alltaf verið að ýta manni. Maður verður létt þreyttur alls staðar en við erum með gott sjúkrateymi sem hugsar vel um mann. Það er allt gert til að koma okkur í 100 prósent stand fyrir næsta leik,“ segir Arnar Freyr.

Línumaðurinn stóri og sterki er aðeins búinn að skora þrjú mörk á mótinu og þurfti til þess sex skot. Hann kom boltanum aldrei í netið á móti Barein og fer ekkert í felur með að hann getur betur.

„Mér finnst ég eiga meira inni, sérstaklega í sóknarleiknum. Ég er ekki alveg búinn að vera að finna mig en ég veit ekki hvers vegna það er. Ég vona bara að það fari að koma sem fyrst. Maður gerir allt til að leggja sitt fram til þess að hjálpa liðinu enn meira,“ segir Arnar Freyr.

„Það kom ekkert af línunni í gær en það er kannski skiljanlegt. Þetta var þannig leikur. Skytturnar hittu á sinn dag. Í sókninni mætti koma meira af línunni,“ segir Arnar Freyr Arnarsson.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Arnar Freyr - Kærkominn hvíldardagur

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×