Handbolti

Einkunnir strákanna okkar á móti Barein: Björgvin Páll og Arnór bestir

Björgvin Páll Gústavsson fagnar góðum leik sínum og íslenska liðsins.
Björgvin Páll Gústavsson fagnar góðum leik sínum og íslenska liðsins. EPA/LUKAS BARTH-TUTTAS
Íslenska handboltalandsliðið vann mjög sannfærandi átján marka sigur á Barein, 36-18, í þriðja leik sínum á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og Danmörku og fyrsti sigurinn er því í húsi.

Leikir eins og þessi á móti Barein í dag eru oft sýnd veiði en ekki gefin en strákarnir okkar fóru mjög fagmannlega að allri sinni nálgun í dag. Íslenska liðið átti allt fínan dag á móti Bareinum sem komust lítið áfram gegn íslenska liðinu í vörn sem sókn.

Líkt og áður þá gefur íþróttadeild Vísis og Stöðvar tvö leikmönnum og þjálfaranum einkunnir fyrir frammistöðu sína.

Björgvin Páll Gústavsson og Arnór Þór Gunnarsson voru bestu leikmenn íslenska liðsins í kvöld að mati okkar en Björgvin Páll varði meðal annars fjögur vítaköst og Arnór nýtti öll átta skotin sín í leiknum.

Leikmenn og þjálfarar fá einkunn á bilinu 1-6 með umsögn, en neðst í fréttinni má sjá hvað hver einkunn þýðir.



Einkunnir Íslands gegn Barein:

- Byrjunarlið Íslands í leiknum -

Björgvin Páll Gústavsson, mark - 5

(16 varin skot- 47:35 mín.)

Átti frábæran dag í München. Virtist njóta þess að spila leikinn enda hatar hann ekki athyglina.

Bjarki Már Elísson, vinstra horn - 4

(3 mörk - 30:00 mín.)

Skilaði sínu fagmannlega. Klikkaði á einu skoti og virðist vera að gesta sig í sessi sem fyrsti kostur.

Aron Pálmarsson, vinstri skytta - 5

(3 mörk - 30:32 mín.)

Byrjaði leikinn frábærlega. Var skynsamur og virðist stýra liðinu af mikill festu. Góður á báðum endum vallarins.

Elvar Örn Jónsson, leikstjórnandi - 5

(4 mörk - 35:32 mín.)

Átti mjög góðan dag. Öflugur sóknarlega, frábær skotmaður og ekki skemmir frammistaða hans í varnarleiknum.

Ómar Ingi Magnússon, hægri skytta - 4

(2 mörk - 11:01 mín.)

Spilar jafnan vel fyrir liðið. Með handboltagreind upp á tíu en hæðin þvælist auðvitað fyrir honum þegar keppt er á stóra sviðinu. Engu að síður frábær leikmaður.

Arnór Þór Gunnarsson, hægra horn - 5

(8 mörk - 34:02 mín.)

Átti frábæran leik og var besti maður íslenska liðsins í sóknarleiknum. Nýtti öll sín færi og var bæði áræðinn og grimmur sem er reyndar ekkert nýtt á nálinn á þeim bænum.

Arnar Freyr Arnarsson, lína - 3

(0 mörk, 4 stopp - 37:44 mín.)

Skilaði sínu en ekkert meira. Virkaði þreyttur enda ekki sjálfgefið að menn geti spilað þennan varnarleik þrjá leiki í röð. Hann á mikið inni.

Ólafur Gústafsson, vörn -  - 4

(11: 41 mín.)

Byrjaði mjög vel í vörninni. Varð fyrir meiðslum sem eru vonandi ekki alvarleg en hann kjölfestan í varnarleik íslenska liðsins og við þurfum á honum að halda.

Ólafur Guðmundsson.Getty/Carsten Harz
- Menn sem komu inn af bekknum í leiknum -

Ágúst Elí Björgvinsson, mark - 3

(1 varið skot - 10:18 mín.)

Kom inn fyrir Björgvin í lokin en þá var leiknum í raun lokið. Ágúst hefur til þessa á mótinu átt fínar innkomur og er vonandi vaxandi.

Ólafur Guðmundsson, vinstri skytta - 5

(5 mörk - 30:43 mín.)

Frábær frammistaða hjá Ólafi annan daginn í röð. Var öflugur í vörn sem sókn en tæknifeilar hjá honum undir lok seinni hálfleiks voru óþarfir.

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi - 4

(1 mark - 11:32 mín.)

Leikstjórnandi af guðs náð. Spilar félaga sína frábærlega uppi en hinsvegar er áhyggjuefni að hann virðist vera í vandræðum með skotin sín utan af velli.

Ýmir Örn Gíslason, lína - 4

(0 mörk - 22:31 mín.)

Hnökralaus leikur hjá honum í vörninni. Fiskaði eitt vítakast. Leikmaður sem er að festa sig í sessi og erfitt að sjá að staðan verði tekin af honum í bráð.

Sigvaldi Guðjónsson, hægra horn - 4

(3 mörk - 25:37 mín.)

Frábær innkoma í seinni hálfleikinn. Er frábær á teignum og ekki ósvipaður leikmaður og við sjáum hjá bestu hornamönnum Skandínavíu. Svona mann hefur okkur sárlega vantað og hann er nú fundinn.  

Teitur Örn Einarsson, hægri skytta - 4

(3 mörk - 20:17 mín.)

Átti frábæra innkomu. Skotmaður af guðsnáð enda gamall spjótkastari. Það verður gaman að sjá hann glíma við sterkari andstæðinga. Vonandi fær hann tækifæri til þess.

Daníel Þór Ingason, vörn - 4

(5 stopp - 30:47 mín.)

Átti mjög góðan leik í vörninni. Hjálparvörnin hjá honum í leiknum var frábær en það er eitthvað sem hefur vantað í mótinu. Naut þess að íslenska liði lá aftar en í síðustu leikjum.

Stefán Rafn Sigurmannsson, vinstra horn - 4

(4 mörk - 30:08 mín.)

Átti mjög góða innkomu og nýtti færin sín vel. Ekki ónýtt að eiga tvo hornamenn í fremstu röð. Mikill styrkur fyrir íslenska liðið.

Guðmundur Guðmundsson.Getty/Carsten Harz
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari - 5

Liðið var frábærlega undirbúið fyrir leikinn og þá bæði í sókn og vörn. Bakkaði með vörnina sem var afar klókt. Vanmetur engann andstæðing en nú er vinnan hjá honum að hefjast fyrir alvöru.

Útskýring á einkunnum:

6 - Heimsklassa frammistaða

5 - Frábær frammistaða

4 - Góð frammistaða

3 - Sæmileg frammistaða - skilaði sínu

2 - Ekki nógu góð frammistaða

1 - Slakur leikur


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×