Handbolti

Guðmundur: Tveir erfiðir leikir framundan

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari. vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var ánægður með leik sinna manna í sigrinum gegn Barein. Hann var sér í lagi ánægður með ákefðina sem hélt út allan leikinn.

Aðspurður hvort að hann hafi ekki verið ánægður með leikinn, sér í lagi í síðari hálfleik, svaraði Guðmundur:

„Ég er líka ánægður með fyrri hálfleikinn. Sóknarnýtingin í fyrri hálfleik var einstaklega góð,“ sagði hann í samtali við Tómas Þór Þórðarson.

„Ég held að við höfum misnotað sóknir en sóknirnar í heild voru ekki margar því þeir héngu mjög lengi á boltanum. Það var erfitt að halda einbeitingu.“

„Það var rétt smá kafli varnarlega sem við misstum þá af og til en svo bættum við bara í eftir því sem á leið og að halda út svona leik sýnir sterkann og mikinn karakter í liðinu.“

„Það er ekki einfalt að halda einbeitingu og svo rúlluðum við á liðinu. Við náðum að hvíla menn sem er mjög mikilvægt. Þetta gekk áfram og virkilega gaman að upplifa þetta.“

Guðmundur segir að það hafi verið mikilvægt að ná aðeins að rúlla á liðinu og þeir sem hafi fengið nasaþefinn í gær hafi komið enn sterkari inn í leikinn í dag.

„Við byrjuðum að rótera liðinu í gær og það var mjög mikilvægt að fá nasaþefinn, taka úr skrekkinn. Síðan gerðum við það sama núna og við rúlluðum vel á þessu og ég er mjög ánægður með það.“

„Það veitir ekki af. Það eru erfiðir tveir leikir framundan en ég er ánægður með innkomu allra sem koma að þessu. Það eru allir sem skila sínu mjög vel. Það var líka fínt að fá á sig þessar sjö á móti sex sóknir þeirra.“

„Það er fínt að reyna sig við það og á stórum köflum leistum við það mjög vel. Við getum fengið það á okkur í öðrum leikjum,“ en Ólafur Gústafsson fór snemma af velli. Guðmundur bjóst ekki við alvarlegum meiðslum.

„Nei, ég held ekki. Hann snéri sig aðeins og ef að hann hefði þurft að koma inn þá hefði hann komið inn en við ákváðum að hvíla hann. Daníel gerði þetta frábærlega vel.“

Ætlar hann að gera einhverjar breytingar á hópnum fyrir komandi leiki en Selfyssingurinn Haukur Þrastarson situr upp í stúku sem sautjándi maður?

„Nei, það stendur ekki til. Nú er bara aðeins að ná endurheimt á kröftum. Þetta er búið að vera gríðarlega erfiðir átján tímar eftir leikinn gegn Spáni. Það er ekki sjálfgefið að koma af þessum krafti í þennan leik.“

„Við erum búnir að sjá Barein spila og hjá mörgum öðrum liðum hefur þeim ekkert gengið sérstaklega vel með þá. Það þarf mikið til að ná þessu,“ sagði Guðmundur að lokum.

Klippa: Guðmundur: Næstu tveir leikir verða erfiðir



Tengdar fréttir

Aron: Komu nánast slefandi út af

Aron Kristjánsson segir að hans menn í Barein hafi orðið virkilega þreyttir í átján marka tapi gegn Íslandi á HM í handbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×