Leik lokið: Ísland - Barein 36-18 | Strákarnir keyrðu Barein í kaf

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bjarki Már Elísson mun líklega láta til sín taka í leiknum.
Bjarki Már Elísson mun líklega láta til sín taka í leiknum. vísir/getty
Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann átján marka stórsigur á lærisveinum Arons Kristjánssonar í Barein á HM 2019 í München í dag.

Lið Barein er ágætlega skólað til, búið til af Guðmundi Guðmundssyni og fengið áframhaldandi þjálfun frá Aroni. Það náði að hanga í því íslenska fyrsu tíu, fimmtán mínúturnar af leiknum en þá fór að halla undan fæti.

Íslensku strákarnir náðu að nýtfæra sér hornin vel, eitthvað sem hafði ekki sést mikið af til þessa, og Björgvin Páll Gústavsson varði hvert skotið á fætur öðru.

Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn orðinn sex mörk, 16-10. Íslenska liðið hafði aðeins tapað einum bolta, skotnýtingin var nær fullkominn og Björgvin Páll var í kringum 40 prósenta markvörslu.

Fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik keyrði íslenska liðið vel á og kom sér í tíu marka forystu 21-11. Þá fór Guðmundur að hvíla menn á borð við Aron Pálmarsson og Ólaf Gústafsson og unga kynslóðin tók völdin.

Ungu strákarnir héldu áfram að keyra á lið Barein og munurinn jókst bara með hverri sókninni. Þegar upp var staðið lauk leiknum með 36-18 sigri Íslands og fyrstu stigin í hús.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði átta mörk fyrir Ísland og Ólafur Guðmundsson kom sterkur inn í lokin með fimm. Elvar Örn Jónsson og Stefán Rafn Sigurmannsson skoruðu fjögur hvor. Björgvin Páll kláraði leikinn með 46 prósenta markvörslu og var útnefndur maður leiksins.

Nánari umfjöllun um leikinn, viðtöl við landsliðsmenn, tölfræði og fleira kemur inn á Vísi síðar í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira