Hafi einhvern tímann verið ástæða til að gefa fimleikakonu meira en tíu fyrir gólfæfingar þá var það í tilfelli Katelyn Ohashi á laugardaginn.
Það er ekki nóg með að Katelyn Ohashi gerði mjög erfiðar æfingar upp á tíu þá gerði hún það um leið og hún dansaði við smelli eins og „September“ með Earth, Wind and Fire, „I Want You Back“ með Jackson 5 og „The Way You Make Me Feel“ með Michael Jackson.
Ohashi var í miklu stuði og heillaði áhorfendurna upp úr skónum sem sáu Katelyn Ohashi hoppa á milli mjög krefjandi æfinga og innilega dansspora án þess að klikka einu sinni.
Æfingu Katelyn Ohashi má sjá hér fyrir neðan en hana verða allir að sjá.
A isn't enough for this floor routine by @katelyn_ohashi. pic.twitter.com/pqUzl7AlUA
— UCLA Gymnastics (@uclagymnastics) January 13, 2019
Það fylgir sögunni að Katelyn Ohashi fékk að sjálfsögðu tíu fyrir æfinguna hér fyrir ofan.
Árið 2018 deildi Katelyn Ohashi bandaríska háskólameistaratitlinum í æfingum á gólfi með Maggie Nichols en það er erfitt að sjá einhverja aðra halda í við hana þegar úrslitin ráðast í vor.
Katelyn Ohashi er 21 árs gömul og kemur frá Seattle í Washington fylki. Hún er á sínu lokaári í UCLA háskólanum.