Handbolti

Aron: Getur rétt ímyndað þér hvað er leiðinlegt að spila á móti þessu

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Aron Pálmarsson var svekktur í leikslok.
Aron Pálmarsson var svekktur í leikslok. vísir/epa
Ísland tapaði, 30-24, fyrir Spáni í öðrum leik liðsins á HM 2019 í handbolta en spænska liðið leiddi nær allan leikinn og stýrði honum frá upphafi.

Spánverjar spiluðu ekki skemmtilegan handbolta. Þeir spiluðu hægt og fengu langar sóknir, voru svolítið að henda sér niður og beittu öllum brögðunum í bókinni

„Var ekki leiðinlegt að horfa á þetta? Þú getur rétt ímyndað þér hvernig er að spila á móti þessu,“ sagði sársvektur Aron Pálmarsson við Vísi eftir leik.

„Fyrsta sóknin þeirra var tvær mínútur en þeir eru klókir og gera þetta vel. Ef þetta er línan hjá dómurunum í dag finnst mér verið að gera handboltann leiðinlegri. Þeir henda sér niður og reyna að fiska okkur út af.“

Dómararnir voru ekki að gera íslenska liðinu neina greiða í leiknum en miðjublokkin var komin með átta mínútur út af eftir korter.

„Ég er ekki að biðja um neitt fyrir okkur. Mér fannst ekkert að þeir áttu að fá fleiri tvær mínútur en það var verið að reka okkur út af fyrir fyrir að brjóta í venjulegum fríköstum. Það er er bara mjög erfitt að spila einum færri á móti liði eins og Spáni,“ segir Aron og tekur undir að leikplanið er helvíti fljótt að fara út um gluggann í svona stöðu.

„Þú getur rétt ímyndað þér. Við treystum á að við erum að vinna einn á einn baráttuna. Þeir eru ekki jafnfljótir og Króatarnir. Ég taldi okkur vera að gera þetta ágætlega þangað til á annarri mínútu þegar að við erum reknir strax út af og svo var það gegnum gangandi allan leikinn. Stundum vorum við á grensunni vissulega en það verður að leyfa smá hörku í handbolta.“

Ísland skoraði 25 mörk í leiknum og fór með nokkur dauðafæri í seinni hálfleik.

„Ég var þannig séð sáttur með sóknarleikinn. Þegar að við stilltum upp í sókn vorum að skora og mér fannst við fá góðar opnanir. Spánverjar spila þannig að þeir gefa aðeins og falla aftur. Þá koma líka tæknifeilar hjá okkur en mér fannst við leysa þetta ágætlega,“ segir Aron.

„Svo tapar maður einum bolta einum færri, enginn í marki, það er kastað yfir völlinn og mark. Þeir eru þetta góðir og hver mistök eru dýr á móti svona liði. Þeir unnu þetta þannig séð sannfærandi. Þeim líður líka best svona í bílstjórasætinu og við að elta. Þeir unnu þetta verðskuldað en maður er helvíti fúll,“ segir Aron Pálmarsson.

Klippa: Aron: Getur ímyndað þér hvað er leiðinlegt að spila á móti þessu



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×