Helgarnar frá því í haust hafa verið notaðar í girðingarvinnu á Sólheimum enda veðrið verið bændum á svæðinu einstaklega hagstætt. Nú er verið að girða fyrir svokallaðar blóðmerar á Sólheimum en það eru merar sem tekið er blóð úr í lyfjagerð.
„Já, þetta undirbýr vorið mjög vel að geta dreift þessu yfir allan veturinn og gert vorverkin núna, þá er minna álag í vor. Ég er vel mannaður í girðingarvinnuna, það léttir á öllu en við erum búnir að vera að girða 150 til 200 hektara núna í haust og vetur og á því svæði verða um 50 blóðmerar,“ segir Ingvar.

„Ég hef einu sinni girt áður í janúar en þá var ekki eins góð tíð og núna. Núna er náttúrulega einstök tíð að gera öll búverk í rauninni, hvort sem það er að plægja, girða og laga girðingar. Það er óskaplegur munur ef bændur geta gert þetta á þessum tíma árs,“ segir Hallgrímur og bætir við að veðurfar hafi breyst mikið á Íslandi, enda muni hann eftir sem krakki að þá hafi verið snjóskaflar upp á húsþök, það sé ekki lengur.
Hallgrímur segist spá því að við sjáum fljótlega af góða veðrinu og þá komi alvöru vetur í nokkrar vikur.
„Það kemur vetur á þorra, þá fáum við frostakafla og svolítið af snjó, það getur ekki annað verið.“
