Handbolti

Dagur: Stefnir í góða átt hjá Íslandi en fleiri lönd eiga efnilega leikmenn

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Dagur Sigurðsson stýrir liði Japan á HM.
Dagur Sigurðsson stýrir liði Japan á HM. vísir/getty
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan og fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands í handbolta, var ánægður með fyrsta leik Íslands á HM 2019 þrátt fyrir tapið á móti Króatíu.

Strákarnir okkar gáfu stórliði Króatíu alvöru leik í 50 mínútur og voru tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik áður en að slakur kafli á síðustu tíu mínútunum gerði út um sigurvonirnar.

„Mér fannst byrjunin mjög jákvæð. Ég held að það sé samdóma álit að allir eru jákvæðir gagnvart liðinu. Ísland spilaði þennan fyrsta leik alveg gríðarlega vel. Mér fannst gaman að sjá hraðann á liðinu. Þetta er lið sem að getur vaxið en það þarf þolinmæði bæði hjá þeim sem að eru í kringum liðið og líka hjá leikmönnum,“ segir Dagur en Vísir settist niður með honum á liðshótelinu.

Elvar Örn Jónsson stóð sig vel í fyrsta leik.Fréttablaðið/AFP

Erfitt að komast upp á við

Ísland var komið í efsta stig handboltans frá 2008-2012 og vann til verðlauna en tröppugangurinn hefur verið niður á við undanfarin ár. Nú vonast menn til að horfa aftur upp á við.

„Þetta stefnir í góða átt en það er erfitt að sækja hvert sæti þarna efst. Það er eitt að koma sér aftur upp í topp sex en skrefin eftir það eru enn þá erfiðari. Þetta vita þeir alveg þannig að menn þurfa bara að vera með þetta á hreinu,“ segir Dagur.

Íslendingar eru eðlilega spenntir fyrir nýju strákunum í liðinu eins og Elvari Erni Jónssyni sem spilaði stórvel í sínum fyrsta leik á stórmóti á móti Króatíu.

Dagur Sigurðsson á æfingu með Japan.vísir/tom

Börsungar heima hjá sér

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Haukur Þrastarson eru svo líka gríðarlega efnilegir en Dagur bendir á að það eru fleiri lönd að ala upp góða leikmenn. Og það ansi góða.

„Stóru liðin eiga öll fullt af efnilegum leikmönnum. Við erum ekkert einir með það að eiga efnilega leikmenn. Ungu leikmennirnir sem að Frakkarnir eru ekki með í hópnum sínum hérna eru líka geggjaðir og eru komnir til Barcelona og stærstu liðin,“ segir Dagur.

„Við megum því ekki ofmeta þetta hjá okkur en þetta er sannarlega jákvætt fyrir handboltann heima og maður sér að þjóðin er rosalega ánægð. Það gerist alltaf að það kemur ný kynslóð,“ segir Dagur Sigurðsson.

Klippa: Dagur - Það kemur alltaf ný kynslóð

Tengdar fréttir

Minntust Kolbeins í München

Kolbeinn Aron Arnarson féll frá um jólin og var minnst af handboltaáhugamönnum í München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×