Handbolti

Arnór: Spiluðum frábæran handbolta á köflum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Þór Gunnarsson
Arnór Þór Gunnarsson vísir/getty
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði með fjórum mörkum fyrir því króatíska í fyrsta leik á HM í dag. Arnór Þór Gunnarsson sagði liðið heilt yfir hafa spilað nokkuð vel þó úrslitin séu svekkjandi.

„Maður er bara mjög fúll. Mér fannst við vera að spila á köflum frábæran handbolta, frábæra vörn og frábæra sókn, en auðvitað duttum við eitthvað niður, það er eðlilegt á móti svona góðu liði eins og Króatíu,“ sagði Arnór Þór við Tómas Þór Þórðarson að leik loknum úti í München.

„En við gerum of mikið a tæknimistökum síðustu fimm mínúturnar og það drepur okkur.“

Íslenska liðið er ungt og frekar óreynt, skrifast þessi lokakafli á þá staðreynd?

„Við ætlum ekki að vera með neinar afsakanir og allt það, þetta getur gerst og við þurfum að læra af þessu allir, ekki bara ungu strákarnir.“

„Við þurfum bara að fara vel yfir leikinn á morgun, það er frídagur á morgun, og bæta okkur. Ég held við getum það.“

Á tímabili í seinni hálfleik átti Ísland frábæran 8-2 kafla og komst aftur yfir eftir að hafa lent undir.

„Þá vorum við að spila fantavörn. Gústi [Ágúst Elí Björgvinsson] kom inn og varði nokkra bolta sem hjálpar okkur gríðarlega. Við þurfum að nýta okkur það, hefðum mátt gera meira af því í leiknum,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson.

Klippa: Arnór: Spiluðum frábæran handbolta á köflum





Fleiri fréttir

Sjá meira


×