Handbolti

Níu marka tap í fyrsta leik hjá strákunum hans Dags

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson stýrir liði Japans í kvöld.
Dagur Sigurðsson stýrir liði Japans í kvöld. EPA/DANIEL KOPATSCH
Makedónía vann 38-29 sigur á Japan í fyrsta leiknum í riðli Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta í Þýskalandi og Danmörku.

Seinna í kvöld spila Ísland og Króatía og lokaleikur riðilsins í dag er síðan á milli Barein og Spánar.

Hinn gamalreyndi Kiril Lazarov var markahæstur hjá Makedóníu með 8 mörk úr 14 skotum en Dejan Manaskov skoraði 7 mörk. Borko Ristovski var Japönum erfiður og varði 19 skot í leiknum.

Jin Watanabe var atkvæðamestur hjá Japan með fimm mörk en Hiroki Shida skoraði fjögur mörk.

Japanska liðið skoraði fyrsta mark leiksins og var síðan 4-3 yfir eftir átta mínútur. Makedónía skoraði þá fjögur mörk í röð og tóku frumkvæðið.

Makedóníumenn tóku eftir það öll völd enda voru þeir mun sterkari en Japanar í dag, leiddu 18-13 í hálfleik og höfðu leikinn í nokkuð öruggum höndum allan síðari hálfleikinn.

Angóla kom mörgum á óvart með 24-23 sigri á Katar á sama tíma en sá leikur er í D-riðli þar sem Svíar spilar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×