Handbolti

Elvar Örn: Setti mér markmið að komast núna á HM og það tókst

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Elvar Örn Jónsson byrjar væntanlega leikinn á móti Króatíu í dag.
Elvar Örn Jónsson byrjar væntanlega leikinn á móti Króatíu í dag. vísir/tom
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss í Olís-deild karla í handbolta, virðist vera orðinn fyrsti leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handbolta sem hefur leik gegn Króatíu á HM 2019 klukkan 17.00 í dag.

Elvar hefur spilað stórvel með landsliðinu í síðustu leikjum en hann bíður rólegur með að sjá endanlega hvar hann er í goggunarröðinni þar til liðið hefur leik í Ólympíuhöllinni í München í dag.

„Við sjáum til hvernig byrjunarliðið verður. Það er auðvitað gríðarlega spennandi að vera að fara að spila leik á stórmóti, hvað þá HM,“ segir Elvar Örn.

Selfyssingurinn er að flestra mati besti leikmaður Olís-deildarinnar og fór á kostum með Selfossi á síðustu leiktíð er liðið komst í undanúrslit í úrslitakeppninni og bikarnum. Hann hefur háleit markið og eitt þeirra náðist.

„Ég setti mér það markmið að komast í þennan hóp og það tókst. Menn hættu og þá fékk maður frekari séns. Markmiðið tókst að komast á HM,“ segir Elvar sem býst eðlilega við erfiðum leik gegn frábæru liði í dag.

„Króatíska liðið er í heimsklassa. Við vitum það en Gummi og Gunni eru búnir að leikgreina þá vel. Við erum búnir að horfa mikið á þá á myndbandi og mér finnst við vera tilbúnir. Við fórum á þetta æfingamót í Noregi sem gekk bara vel. Þetta verður vonandi skemmtilegur leikur á morgun.“

Eins og fram hefur komið eru fjórir leikmenn í íslenska hópnum uppeldir Selfyssingar og svo spriklaði Bjarki Már Elísson í Mjólkurbænum í nokkur ár.

„Þetta er bara góður hópur og góður félagsskapur. Það eru allir vinir hérna og við Selfyssingarnir erum ekkert bara saman þrátt fyrir tengslin. Það er samt bara gaman að vera með svona marga Selfyssinga í liðinu,“ segir Elvar Örn Jónsson.

Klippa: Elvar Örn - Gaman að vera með svona marga Selfyssinga

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×