Handbolti

Má ekki spila með grímuna og fórnar nefinu fyrir málstaðinn

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Arnar Freyr Arnarsson hitar upp á landsliðsæfingunni í dag.
Arnar Freyr Arnarsson hitar upp á landsliðsæfingunni í dag. vísir/tom
Arnar Freyr Arnarsson, línumaður íslenska landsliðsins í handbolta, æfir með hlífðargrímu vegna nefbrots sem að hann varð fyrir í desember en út af brotinu var hann ekki með á æfingamótinu í Noregi.

Bannað er að spila með slíka grímu og þarf Arnar því að taka slaginn inn á línunni á HM. Og inn á línunni er svo sannarlega slagur. Nefið er ekki að öllu gróið og því er Arnar að fórna nebbanum fyrir málstaðinn.

„Ég má ekki fá þungt högg. Ég er smá tæpur en þetta er bara nefbrot. Læknarnir segja að þetta eigi að vera það gróið að það þurfi mikið högg til þess að brotna aftur. Þeir sögðu mér að kýla á þetta og því er ekkert annað í stöðunni. Ef ég fæ annað högg brotnar þetta aftur. Það er ekkert öðruvísi,“ segir Arnar Freyr sem er ekki aðdáandi grímunnar.

Arnar með grímuna á æfingu í dag.vísir/tom
„Það var mjög óþægilegt á fyrstu æfingunum en þetta venst. Þetta þrengir mikið sýnina á línunni. Í dag var þetta bara fínt og í fyrradag líka. Þetta bara venst,“ segir hann.

Línumannsstaðan er ein sú veikasta hjá liðinu en á eftir Arnari, sem er að spila í Meistaradeildinni með Kristianstad, er Ýmir Örn Gíslason sem varð að línumanni í Olís-deildinni fyrir nokkrum mánuðum. Ábyrgðin er því mikil á Arnari.

„Ég er bara mjög spenntur og þetta er eiginlega fyrsta mótið sem ég finn bara fyrir tilhlökkun. Ég er rosalega spenntur fyrir því að byrja mótið og fara að spila. Ábyrgðin hefur alltaf verið síðan að ég byrjaði í landsliðinu en maður verður bara að fíla þetta og ég er bara spenntur fyrir því að byrja mótið,“ segir Arnar sem er í þrusu standi.

„Ég er alveg í mjög góðu standi. Það er smá ókostur að ég náði ekki að spila þessa leiki í Noregi því þar hefði ég náð að komast aðeins meira inn í þetta. Ég er samt eins tilbúinn í þetta og mögulega verður og ég get ekki beðið eftir því að byrja,“ segir Arnar Freyr Arnarsson.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×