Handbolti

Horfir á myndbönd af gamla Aroni til að koma sér í skotgírinn

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Aron Pálmarsson á æfingunni í dag.
Aron Pálmarsson á æfingunni í dag. vísir/tom
Næg ábyrgð er yfir höfuð á Aroni Pálmarssyni í íslenska landsliðinu í handbolta enda þess besti maður. Á þriðjudaginn jókst ábyrgðin enn frekar þegar að fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson varð frá að hverfa vegna meiðsla. Það truflar þó Hafnfirðinginn lítið.

„Ég er bara góður. Það er allavega ekkert stress á mér. Ég er bara spenntur í rauninni. Ég tek þessu fyrirliðahlutverki fagnandi en þar sem að Gaui datt út verður varafyrirliðinn að fyrirliða liðsins. Ég er bara stoltur og spenntur fyrir því að takast á við það verkefni,“

Aron er einn besti leikstjórnandi heims og stýrir sóknarleik Barcelona eins og umferðarlögregla. Horfnir eru þeir dagar sem hann skaut bara og skaut á markið eins og með íslenska liðinu forðum daga en það er nákvæmlega það hlutverk sem hann á að spila með Íslandi á ný undir stjórn Gumma.

„Ég skal viðurkenna það, að það er erfiðara en ég hélt. Ég var aðeins of kokhraustur áður en ég mætti í verkefnið og átti að fara að skjóta aðeins meira. Þetta er allt annar handbolti sem er spilaður hér en hjá Barcelona,“

„Ég er búinn að stimpla mig inn á þetta núna og ég er búinn að vera að horfa á myndbönd af mér þegar að ég var í gamla hlutverkinu hjá Gumma. Mér líður alveg ágætlega með það að skjóta á markið. Það er gaman að detta í þann Aron aftur. Við spilum beinskeyttari handbolta og viljum fá kraft í sóknirnar sem hentar mér ágætlega. Nú er bara undir mér komið að sýna það á morgun að ég get staðið undir þessu,“

Íslenska liðið er ungt en nýju mennirnir eru svo lítt þekktir í handboltaheiminum að það getur nýst sem vopn á HM.

„Mér finnst við drullugóðir. Það sem að þeir eiga að nýta núna er hvað þeir eru lítt þekktir. Þeir eru ekki mjög þekktir í handboltaheiminum sem er gríðarlegt vopn því að þeir eru það góðir. Ég væri ekkert að segja þetta nema að mér myndi finnast það,“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Aron Pálmarsson - Erfiðara en ég hélt

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×