Handbolti

Ráðgátan ráðin um treyjunúmer Gunnarsson-bræðranna

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Aron Einar veit þá núna hvers vegna hann er númer 17.
Aron Einar veit þá núna hvers vegna hann er númer 17. vísir/getty
Arnór Þór Gunnarsson, hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, er heldur betur klár í slaginn fyrir leikinn gegn Króatíu á morgun en hann æfði með íslenska liðinu í Ólympíuhöllinni í dag.

„Fiðringurinn er klárlega mættur. Það var gott að komast aðeins inn í höllina og finna aðeins fyrir sér þar. Við tókum góðan klukkutíma myndbandsfund fyrir æfinguna og nú erum við að fara að mæta góðu liði. Króatarnir hafa alltaf verið frábærir í handbolta þannig að þetta verður bara hörkuleikur,“ segir Arnór Þór.

Strákarnir fengu frí frá æfingu í gær eftir langan dag sem hófst um miðja nótt.

„Við vöknuðum klukkan 3:40 eða eitthvað þannig um nóttina og svo beint á flugvöllinn og rúta eftir það. Það var því gott að fá smá hvíld en auðvitað fór maður í göngutúr og svona. Það er mikilvægt aðeins að hreyfa sig. Maður má ekki liggja bara í rúminu,“ segir hornamaðurinn.

Arnór þurfti altlaf að vera númer 14 út af Sverre Jakobssyni.vísir/epa
Akureyringurinn er að spila líklega sinn besta bolta á ferlinum um þessar mundir en hann raðar inn mörkum fyrir Bergischer í þýsku 1. deildinni og er einn af markahæstu leikmönnum deildarinnar.

„Ég er mjög spenntur. Það er ógeðslega gaman að spila í Þýskalandi. Það er alltaf full höll og frábær stemning. Maður verður bara að njóta þess. Mér hefur gengið vel í deildinni en það þýðir ekkert að hugsa um það. Það er bara næsti leikur og svo næsti leikur eftir það,“ segir hann.

Bróðir Arnórs er landsliðsfyririðinn í fótbolta, Aron Einar Gunnarsson. Báðir spila þeir í treyju númer 17 en Arnór fékk það númer reyndar ekki fyrr en á EM í Króatíu í fyrra með landsliðinu. Hann hefur samt spilað í 17 allan ferilinn með félagsliðum sínum.

Í ævisögu Arons Einars sem kom út fyrir jólin segist hann spila í treyju númer 17 út af bróðir sínum sem að hann leit mikið upp til en hann segir sömuleiðis í bókinni að hann viti ekki hvers vegna þeir eru í 17. Veit Arnór svarið við spurningunni?

„Já, ég get svarað henni. Amma okkar er frá Ísafirði og húsnúmerið hennar var 17. Ég tók það bara,“ segir Arnór Þór Gunnarsson.

Flóknara var það ekki.

Klippa: Arnór Þór um númerið 17

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×