Handbolti

Mestu yfirburðir markakóngs HM í handbolta í tíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen kyssir HM-bikarinn.
Mikkel Hansen kyssir HM-bikarinn. Getty/Martin Rose
Daninn Mikkel Hansen var ekki bara markahæsti maður HM í handbolta í ár því hann var sá langmarkahæsti. Hansen skoraði alls 72 mörk í 10 leikjum Dana á mótinu.

Hansen skoraði þrettán mörkum meira en næsti maður sem var Norðmaðurinn Magnus Jöndal. Jöndal náði aðeins að minnka forskotið þegar hann raðaði inn mörkum í úrslitaleiknum þegar úrslitin í leiknum voru löngu ráðin.

Mikkel Hansen skoraði meðal annars fjórtán mörk í sigri á Norðmönnum í riðlakeppninni og tólf mörk í sigri á Frökkum í undanúrslitaleiknum.

Þetta eru mestu yfirburðir markakóngs HM í tíu ár eða síðan að Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov skoraði 26 mörkum meira en næsti maður á HM í Króatíu árið 2009.

Mikkel Hansen var einnig markakóngur á HM fyrir átta árum en hann skoraði þá tólf mörkum meira en næsti maður.

Guðjón Valur Sigurðsson varð einnig markakóngur HM með talsverðum yfirburðum á HM í Þýskalandi 2007 þegar hann skorað 66 mörk eða níu mörkum meira en næsti maður.

Mikkel Hansen var nú að klára sitt sjötta heimsmeistaramót og varð heimsmeistari í fyrsta sinn. Hann vann silfur á heimsmeistaramótunum 2011 og 2013. Mikkel var kosinn bestur á HM 2013 og var valinn í úrvalsliðið á HM 2011.

Alls hefur Mikkel spilað 50 leiki í úrslitakeppni HM og er með 267 mörk og 188 stoðsendingar í þeim. Hann hefur því komið að meðaltali að 9,1 marki í leik á þessum sex heimsmeistaramótum sem er mögnuð tölfræði.

Flest mörk í forskot sem markakóngur HM í handbolta á öldinni (2000-2019):

26 marka forskot

Kiril Lazarov, Makedóníu á HM 2009 (92 mörk)



13 marka forskot


Mikkel Hansen, Danmörku á HM 2019 (72 mörk)



12 marka forskot


Mikkel Hansen, Danmörku á HM 2011 (68 mörk)

9 marka forskot

Guðjón Valur Sigurðsson, Íslandi á HM 2007 (66 mörk)

5 marka forskot

Anders Eggert, Danmörku á HM 2013 (55 mörk)

Sex heimsmeistarakeppnir Mikkel Hansen á ferlinum:

HM 2019: 72 mörk og 37 stoðsendingar í 10 leikjum (Heimsmeistari)

HM 2017: 26 mörk og 19 stoðsendingar í 6 leikjum (10. sæti)

HM 2015: 39 mörk og 49 stoðsendingar í 9 leikjum (5. sæti)

HM 2013: 22 mörk og 20 stoðsendingar í 7 leikjum (Silfurverðlaun)

HM 2011: 68 mörk og 34 stoðsensdingar í 10 leikjum (Silfurverðlaun)

HM 2009: 40 mörk go 29 stoðsendingar í 8 leikjum (4. sæti)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×