Erlent

Banksy-verki til minnis um fórnarlömb hryðjuverka stolið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verkið var staðsett á einum af neyðarútgöngum tónleikahallarinnar.
Verkið var staðsett á einum af neyðarútgöngum tónleikahallarinnar. Sadak Souici/Getty
Málverki eftir breska listamanninn Banksy, sem málað var til minnis um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar í París 2015, hefur verið stolið úr Bataclan tónleikahöllinni, þar sem árásin átti sér stað.

Verkið, sem er hvítt stensilmálverk á svörtum bakgrunni og sýnir sorgmædda stúlku, var skorið af neyðarhurðinni sem það var málað á og numið á brott.

„Verk Banksy, sem er tákn endurminningar og er eign okkar allra, heimafólks, Parísarbúa og íbúa heimsins, hefur verið tekið frá okkur,“ sagði í yfirlýsingu frá tónleikahúsinu, sem kom einnig inn á „vanþóknun starfsfólks“ á þjófnaðinum.

Samkvæmt heimildum sem standa nærri rannsókn málsins var „hópur hettuklæddra manna vopnaðir slípirokkum sem skáru málverkið út og námu það á brott í bifreið sína“ aðfaranótt laugardags.

90 manns létust í árás íslamskra hryðjuverkamanna á Bataclan tónleikahöllina í nóvember 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×