Handbolti

Norðurlandaslagur í úrslitunum eftir að Norðmenn kláruðu Þjóðverja

Anton Ingi Leifsson skrifar
Norðmenn fagna í kvöld.
Norðmenn fagna í kvöld. vísir/getty
Norðmenn eru komnir í úrslitaleikinn á HM í handbolta og mæta þeir Dönum en þetta varð ljóst eftir að Norðmenn höfðu betur gegn Þýskalandi í undanúrslitunum í Hamborg í kvöld, 31-25.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfeik þó að Norðmennirnir hafa ávallt verið skrefi á undan. Þjóðverjar voru mikið að láta reka sig útaf en þeir norsku náðu mest þriggja marka forystu í fyrri hálfleik. Þeir leiddu svo í hálfleik með tveimur mörkum, 14-12.

Fljótlega í síðari hálfleik voru Norðmennirnir komnir í fjögurra marka forystu og það forskot létu þeir aldrei af hendi. Þrátt fyrir fína spretti þeirra þýsku náðu þeir mest að minnka muninn í eitt mark en nær komust þeir ekki. Lokatölur 31-25.

Það verða því Norðurlandaþjóðirnar Danmörk og Noregur sem mætast í úrslitaleiknum um HM gullið í Herning í Danmörku á sunnudagskvöldið en Frakkland og Þýskaland spila um bronsið.

Sander Sagosen var frábær í liði Norðmanna. Hann skoraði sex mörk auk þess að gefa tíu stoðsendingar. Magnus Rod var þó markahæstur með sjö mörk en hann meiddist undir lok leiksins og er óvíst með þáttöku hans í úrslitaleiknum. Bjarte Myrhol gerði sex mörk og var valinn maður leiksins.

Uwe Gensheimer og Fabian Bohm drógu vagninn í þýska liðinu. Uwe skoraði sjö mörk og Fabian gerði sex. Fabian Weide gerði svo fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×