Handbolti

Arnór Þór var besti leikmaður Íslands á HM 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. Getty/TF-Images
Vísir hefur tekið saman meðaleinkunn strákanna okkar á HM í handbolta 2019 og besti maður íslenska liðsins lék í hægra horninu.

 

Vísir gaf leikmönnum íslenska handboltalandsliðsins einkunn fyrir frammistöðu sína í öllum átta leikjum liðsins á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og Danmörku. Einkunnagjöfin birtist strax eftir leik og nú höfðum við tekið alla leikina saman.

Besti leikmaður íslenska liðsins á mótinu var Arnór Þór Gunnarsson en hann var með 4,5 í meðaleinkunn sem er frábær frammistaða. Arnór var langmarkahæsti leikmaður íslenska liðsins þrátt fyrir að missa af tveimur síðustu leikjunum en hann skoraði 37 mörk eða ellefu mörkum meira en næsti maður.

Aron Pálmarsson var í öðru sæti með 4,3 í meðaleinkunn en hann missti líka af tveimur síðustu leikjunum. Íslenska liðið saknaði þeirra Arnórs og Arons á móti Frakklandi og Brasilíu en þessir tveir leikir voru þeir slökustu á mótinu samkvæmt einkunnagjöf Vísis.

Þrír menn deila þriðja sætinu en þeir spiluðu allir stórt hlutverk í íslenska varnarleiknum. Ólafur Guðmundsson, Ólafur Gústafsson og Elvar Örn Jónsson voru allir jafnir með 3,75 í meðaleinkunn. Elvar Örn fékk líka mikla ábyrgð í sóknarleiknum eftir að Aron datt út.

Menn voru líka jafnir í sætum sex til níu en fjórir leikmenn íslenska liðsins voru með 3,5 í meðaleinkunn. Það voru þeir Björgvin Páll Gústavsson, Daníel Þór Ingason, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Arnar Freyr Arnarsson.

Arnór Þór Gunnarsson og Elvar Örn Jónsson náðu því að vera bestu menn íslenska liðsins í tveimur leikjum, Arnór á móti Barein og Makedóníu en Elvar Örn á móti Frakklandi og Brasilíu.

Aron Pálmarsson (á móti Króatíu), Ólafur Guðmundsson (á móti Spáni), Björgvin Páll Gústavsson (á móti Barein), Stefán Rafn Sigurmannsson (á móti Japan) og Ólafur Gústafsson (á móti Þýskalandi) náðu líka að vera bestu menn íslenska liðsins í einum leik.

Besti leikur íslenska liðsins á mótinu samkvæmt einkunnagjöfinni var sigurleikurinn á móti Makedóníu þar sem íslensku strákarnir tryggðu sig inn í milliriðla. Þrír næstu leikir voru allir í hópi fjögurra fyrstu leikja íslenska liðsins á mótinu.

Aron Pálmarsson.Getty/TF-Images
Hæsta meðaleinkunn íslensku landsliðsmannanna á HM í handbolta 2019:

1. Arnór Þór Gunnarsson    4,5

2. Aron Pálmarsson    4,3

3. Ólafur Guðmundsson    3,75

3. Ólafur Gústafsson    3,75

3. Elvar Örn Jónsson    3,75

6. Björgvin Páll Gústavsson    3,5

6. Daníel Þór Ingason    3,5

6. Gísli Þorgeir Kristjánsson    3,5

6. Arnar Freyr Arnarsson    3,5

10. Sigvaldi Guðjónsson    3,4

11. Bjarki Már Elísson    3,375

12. Ágúst Elí Björgvinsson    3,2

13. Ýmir Örn Gíslason    3,17

14. Teitur Örn Einarsson    3

15. Ómar Ingi Magnússon    2,88

16. Stefán Rafn Sigurmannsson    2,83

17. Haukur Þrastarson    2,5

18. Óðinn Þór Ríkharðsson lék ekki

Arnór Þór Gunnarsson fagnar marki á HM 2019.Getty/TF-Images
Bestu leikir íslenska liðsins samkvæmt einkunnagjöfinni:

1. Makedónía 4,25

2. Barein 4,19

3. Króatía 4,09

4. Spánn 3,38

5. Japan 3,23

6. Þýskaland 3,21

7. Frakkland 3,00

8. Brasilía 2,42


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×