Erlent

Leikmaður Cardiff í flugvél sem hrapaði í Ermarsund

Samúel Karl Ólason skrifar
Emiliano Sala var nýverið keyptur til Cardiff.
Emiliano Sala var nýverið keyptur til Cardiff. Getty/Cardiff City FC
Lítil farþegaflugvél sem verið var að fljúga frá Nantes í Frakklandi til Cardiff í Bretlandi er sögð hafa hrapað yfir Ermarsundi í gærkvöldi. Argentínumaðurinn Emiliano Sala, nýr leikmaður Cardiff City, var um borð í flugvélinni, sem er af gerðinni Piper Malibu, og hefur það verið staðfest af yfirvöldum í Frakklandi. Talið er að hann hafi verið einn, ásamt flugmanni á ferð.

Leit stendur nú yfir en flugvélin hvarf af ratsjám skammt undan ströndum Frakklands. Yfirvöld í Bretlandi hafa sent leitaraðila til aðstoðar við leitina. Nánar tiltekið er talið að flugvélin hafi hrapað norður af eyjunni Alderney en veðurskilyrði hafa gert leitina erfiða.

Leitarskilyrði hafa skánað verulega nú í morgun.

Samkvæmt BBC hafði flugvélinni verið flogið í um fimm þúsund feta hæð. Flugmaður hennar hafði svo samband við flugumferðarstjórn og bað um heimild til að lækka flugið. Flugvélin hvarf svo af ratsjám í um 2.300 feta hæð.

Notast er við tvær þyrlur, tvær flugvélar og einn björgunarbát við leitina. Engin neyðarboð bárust frá flugvélinni en fregnir hafa borist af því að blys hafi sést á svæðinu. Engin ummerki um flugvélina hafa þó fundist.

Lögreglan sendi frá sér skilaboð skömmu fyrir hádegi og segir búið að leita á rúmlega þúsund ferkílómetra svæði. Enn hafi ekkert fundist.



Le Monde segir hinn 28 ára gamla Sala hafa kastað kveðju á liðsfélaga sína í Nantes í gær áður en hann lagði af stað til Cardiff.

Cardiff City keypti Sala, sem er frá Argentínu, þann 19. janúar á fimmtán milljónir punda, sem er metupphæð fyrir félagið.

Hér má sjá síðasta tíst Sala frá því í gærkvöldi.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, spilar einnig fyrir Cardiff. Þá spilar Kolbeinn Sigþórsson í Nantes.

Forsvarsmenn Nantes hafa tilkynnt að bikarleiki liðsins gegn L'Entente, sem átti að fara fram í dag, hefur verið frestað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×