
Birgir vakti athygli í dag fyrir að gera skýran greinarmun á sér og svo öðrum þingmönnum Miðflokksins, sem einmitt eru nú flestir hverjir kenndir við Klaustur bar eftir að upptökur sem meðal annars þykja óræk sönnun fyrir megnri kvenfyrirlitningu, voru opinberaðar. Birgir vill að boðað verði til flokksráðsfundar vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og telur stöðu Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar ekki geta verið þá sömu, eftir sem áður.
Björn Ingi Hrafnsson, sem rekur vefmiðilinn Viljann, sagði í Facebookfærslu að rökrétt ályktun sem draga mætti af þessu væri sú að Birgir vildi styrkja stöðu sína innan flokksins.
En, það var ekki á Birgi að heyra að þar hengi á spýtunni. Því í ræðu Birgis kom fram að hann hafi verið viðstaddur ráðstefnu Evrópuráðsins nýverið. Þar voru einnig Rósa Björk Brynjólfsdóttir VG og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírötum. Þar var boðað sérstakt átak gegn kynferðislegu ofbeldi á þjóðþingum undir slagorðinu: Not in my Parliament. Greinilegt er að Birgir var innblásinn eftir þá ferð og lyfti hann skilti með slagorðinu á og vildi að forseti Alþingis gengi í að láta prenta hliðstæð spjöld á íslensku.

„Niðurstöðurnar eru sláandi. Daglega verða þingkonur í Evrópu fyrir kynferðislegu ofbeldi. Rúmlega 40 prósent af þingkonum í þjóðþingum Evrópu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, og í 70 prósent tilfella eru gerendurnir karlkyns þingmenn. Helmingur þingkvenna hefur orðið fyrir kynferðislegum athugasemdum þar sem mikill meirihluti gerenda eru karlkyns þingmenn,“ sagði Birgir meðal annars í ræðu sinni sem féll í afar vel í kramið, ekki síst meðal kvenna í þingmannaliðinu.