Héraðssaksóknari hefur ákært konu fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið tengdason sinn með hnífi í heimahúsi á Akranesi aðfaranótt 10. nóvember síðastliðinn. Konan hefur neitað sök við yfirheyrslu hjá lögreglu og heldur því fram að tengdasonurinn hafi jafnvel sjálfur gengið á hnífinn á meðan hún var við þrif í eldhúsinu.
Maðurinn sagði við yfirheyrslu hjá lögreglu að konan hefði verið honum afar reið vegna þess að hringt var á lögreglu vegna ölvunar hennar á meðan hún gætti barnabarns síns, sem er dóttir mannsins. Hafi hann vaknað við það að konan stóð í herbergi hans og öskrað á hann. Þegar hann ætlaði að færa hana úr herberginu hafi hún stungið hann.
Tekinn var fyrir krafa embættis héraðssaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir konunni í Landsrétti í gær í ljósi þess að búið er að ákæra hana. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu saksóknara um að konan sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til meðferðar fyrir dómstólum, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 28. febrúar næstkomandi. Var sá úrskurður kærður til Landsréttar sem staðfesti úrskurðinn í gær.
Dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur var sammála áliti saksóknara að konan væri undir sterkum grun um tilraun til manndráps sem getur varðað fangelsisvist ekki skemur en fimm ár eða ævilangt.
Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að konan neiti sök en hún sagðist hafa verið inni í eldhúsi umrætt kvöld að þrífa þegar hún hafi tekið eftir tengdasyni sínum fyrir aftan sig. Konan hélt því fram við yfirheyrslu að hún hefði snúið sér við með stóran hníf í hendinni. Hún hafi ekki munað eftir því hvernig hún hélt á hnífnum en talið það hafa verið í hæð við vaskinn. Hún hafi þá tekið eftir því að tengdasyninum blæddi og hún hafi jafnvel talið að hann hefði sjálfur labbað að sér og farið á hnífinn.
Lögreglan segir að konunni og tengdasyninum beri ekki saman um atvik máls, en framburður tengdasonarins eigi sér að mörgu leyti stoð í gögnum málsins.
Áður hafði Vísir greint frá fyrir gæsluvarðhaldsúrskurði yfir konunni en þar kom fram að konan væri grunuð um að hafa fjarlægt bæði síma og spjaldtölvu mannsins á meðan hann svaf ásamt því að hafa stungið á hjólbarða bíls hans.
Lögreglan taldi sterkan grun um að konan hafi ætlað sér að hindra manninn í að komast af vettvangi og að hún hafi verið byrjuð að hreinsa vettvanginn eða koma sönnunargögnum undan en í bifreiðinni fyrir utan húsið fannst hnífur og blóðug föt.
Segir tengdason sinn jafnvel hafa gengið á hnífinn

Tengdar fréttir

Grunuð um að hafa reynt að drepa tengdason sinn og afmá verksummerki
Einnig grunuð um að hafa stungið á hjólbarða bíls til að varna því að maðurinn kæmist í burtu.