Juan Guaido, forseti þings Venesúela og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hvetur kínversk stjórnvöld til að láta af stuðningi sínum við Nicolas Maduro forseta Venesúela. Kom hvatningin í kjölfar þess að stjórnvöld í Peking sögðust ætla að vinna með Venesúela sama hvernig mál þróuðust í landinu.
Guaido sagði í viðtali við kínverska fjölmiðla að Kína sem er stærsti lánardrottinn Venesúela hefði gríðarlega möguleika í því að hjálpa til við uppbyggingu efnahags landsins.
Búist er við því að leiðtogar Evrópuríkja á borð við Bretland, Frakkland, Þýskaland og fleiri viðurkenni Guaido sem forseta Venesúela komi ekki strax fram yfirlýsing frá Maduro um nýjar kosningar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í samtali við CBS-sjónvarpsstöðina í gær að hann útilokaði ekki hernaðaríhlutun gæfi Maduro ekki eftir.
Bandaríkjamenn hafa ákveðið að senda hjálpargögn til Venesúela að beiðni Guaido. Þar sem þingforsetinn og hans stuðningsmenn ráða ekki yfir neinu landsvæði í Venesúela er áformað að setja upp miðstöðvar í nágrannalöndum þangað sem fjöldi Venesúelabúa hefur flúið.
Maduro sagði stuðningsmönnum sínum á laugardag að hann myndi ekki heimila að hjálpargögn yrðu send til landsins. Venesúela væri ekki og hefði ekki verið land betlara. Þá væri boð um aðstoð frá Bandaríkjunum aðeins yfirskin og fyrirvari hernaðaríhlutunar.
