Erlent

Takmarka áróður gegn bólusetningum á Facebook

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
NORDICPHOTOS/GETTY
Facebook hyggst takmarka áróður gegn bólusetningum á samfélagsmiðlinum. Þetta staðfesti talsmaður fyrirtækisins í gær.

Á undanförnum árum hefur andstaða við bólusetningar farið vaxandi víða um heim sem leitt hefur til minni þátttöku með þeim afleiðingum að bólusetningasjúkdómar hafa blossað upp. Skæðir mislingafaraldrar hafa til að mynda komið upp í Bandaríkjunum. Neyðarástandi hefur nú verið lýst yfir í Clark-sýslu í Portland þar sem 58 hafa smitast af mislingum frá janúarbyrjun.

Á fimmtudag ritaði Adam Schiff, demókrati og formaður upplýsingamálanefndar bandaríska þingsins, opið bréf til Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook og Sundar Pichai, forstjóra Google og viðraði áhyggjur sínar af dreifingu falsfrétta og rangra upplýsinga um bólusetningar. Benti hann meðal annars á að hópar sem standa þeim að baki væru að greiða sérstaklega fyrir víðtæka dreifingu. Í bréfinu segir að fullyrðingar andbólusetningasinna styðjist ekki við neinar sannanir.

Í frétt CNN er haft eftir talsmanni Facebook að fyrirtækið hafi þegar stigið ákveðin skref til þess að takmarka áróðurinn á samfélgsmiðlinum. Nú sé unnið að frekari leiðum til þess að koma í veg fyrir dreifinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×