Guðmundur Spartakus Ómarsson er mættur í Landsrétt til þess að gefa þar skýrslu í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn Atla Má Gylfasyni, blaðamanni, vegna umfjöllunar eftir hann sem birtist í Stundinni í desember 2016.
Sjá einnig: Guðmundur Spartakus til Íslands vegna máls gegn Atla Má
Guðmundur stefndi Atla Má vegna umfjöllunarinnar. Fór hann fram á ómerkingu á ærumeiðandi ummælum og greiðslu miskabóta vegna ítrekaðra ærumeiðinga og brota á friðhelgi stefnanda, eins og sagði í stefnunni.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Atla Má í maí síðastliðnum af stefnu Guðmundar og var Guðmundi gert að greiða 600 þúsund krónur í málskostnað.
Sjá einnig: Atli Már sýknaður í meiðyrðamáli Guðmundar Spartakusar
Guðmundur, sem búsettur er í Suður-Ameríku áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar en málflutningur í málinu fer fram þar í dag. Guðmundur bar ekki vitni fyrir héraðsdómi en mun eins og áður segir gefa skýrslu fyrir Landsrétti nú fyrir hádegi.
Vísir mun fylgjast með úr dómsal og greina frá því sem fram fer.