Erlent

Viðræðum Trump og Kim óvænt slitið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vel fór á með þeim Kim Jong-un og Donald Trump í gær. Fundur þeirra í dag varð hins vegar ekki jafn árangursríkur og vonir höfðu staðið til.
Vel fór á með þeim Kim Jong-un og Donald Trump í gær. Fundur þeirra í dag varð hins vegar ekki jafn árangursríkur og vonir höfðu staðið til. Getty/Saul Loeb
Leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður Kóreu, í Víetnam sem fram fór í morgun varð mun styttri en menn höfðu gert ráð fyrir. Fundinum er lokið og ekkert varð af fyrirhuguðum sameiginlegum blaðamannafundi sem til stóð að halda að fundinum loknum.

Trump hefur boðað til blaðamannafundar vegna hinna óvæntu vendinga en sem stendur er ekki vitað hvers vegna fundi leiðtoganna lauk svo snögglega.

Trump fór rakleiðis af fundinum ásamt fylgdarliði sínu og sama gerði Kim Jong-Un um klukkan tvö að staðartíma, sjö að íslenskum. Fundinum átti samkvæmt dagskrá að ljúka um klukkan fjögur, eða tveimur tímum síðar. Þá hafði verið búist við því að leiðtogarnir næðu einhvers konar samkomulagi um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu og að mögulega yrði samningur þess efnis einnig undirritaður en ekkert verður af því.



Í yfirlýsingu sem Hvíta-húsið sendi frá sér á sjöunda tímanum segir að þrátt fyrir að Trump og Kim hafi átt „góðar og uppbyggilegar samræður í Hanoi“ hafi þeir ekki komist að samkomulagi. Leiðtogarnir hafi til að mynda rætt kjarnorkuafvopnun og efnahagsmál. Þessum samræðum sé hins vegar ekki lokið og að sendinefndir ríkjanna hlakki til að eiga fleri fundi í framtíðinni.

Hlutabréfamarkaðir í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum tóku hinum óvæntu fundarslitum illa. Suður-Kóreska vísitalan hefur fallið um rúmt prósent og gert er ráð fyrir að eitthvað svipað verði upp á teningnum þegar markaðir opna vestanhafs.

Hér að neðan verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá blaðamannafundi Trump, sem gert er ráð fyrir að hefjist innan skamms. Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttir

Fundur Trump og Kim hafinn

Leiðtogarnir hittust nú fyrir skömmu þar sem þeir fögnuðu hvorum öðrum og héldu svo til kvöldverðar.

Sannfærður um árangur í Hanoi

Vel fór á með þeim Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, á fyrsta degi leiðtogafundar þeirra í víetnömsku borginni Hanoi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×