Viðskipti innlent

Tilboðum í Icelandair Hotels skilað í vikulok   

Hörður Ægisson skrifar
Icelandair Hotels rekur meðal annars hótelið Canopy Reykjavík við Smiðjustíg.
Icelandair Hotels rekur meðal annars hótelið Canopy Reykjavík við Smiðjustíg. FBL/Sigtryggur Ari
Fjárfestar sem fóru áfram í aðra umferð söluferlisins á Icelandair Hotels, dótturfélagi Icelandair Group, hafa frest fram til 1. mars næstkomandi til að skila inn skuldbindandi tilboðum í hótelkeðjuna, samkvæmt heimildum Markaðarins. Upphaflega var gert ráð fyrir að tilboð myndu berast ekki síðar en 12. febrúar síðastliðinn en ákveðið var að framlengja frestinn fram til mánaðamóta.

Á meðal þeirra fjárfesta sem voru teknir áfram í aðra umferð söluferlisins í byrjun ársins voru Keahótel og fasteignafélagið Reginn, sem skiluðu inn sameiginlegu tilboði, sjóður í stýringu Blackstone og asísk hótelkeðja. Óskuldbindandi tilboð fjárfestanna á þeim tíma námu á bilinu um 140 til 165 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 17 til 20 milljarða króna, miðað við heildarvirði félagsins. Samkvæmt heimildarmönnum Markaðarins, sem þekkja vel til söluferlisins, eiga þeir frekar von á því að þau skuldbindandi tilboð sem muni berast í hótelkeðjuna verði nær neðri mörkunum.

Stefnt er að því niðurstaða fáist í söluferlið, sem hófst formlega í byrjun nóvember í fyrra, fyrir lok fyrsta ársfjórðungs.

Icelandair Hotels rekur 13 hótel í Reykjavík og á landsbyggðinni auk þess að reka einnig sumarhótelkeðjuna Hótel Eddu, en um er að ræða alls 1.937 herbergi á landinu öllu. Fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir að leigutekjur fasteigna nemi 800 milljónum og að EBITDA hótelrekstrar verði um 1.100 milljónir.


Tengdar fréttir

Bjóða allt að 20 milljarða í Icelandair Hotels

Tilboð fjárfesta sem var hleypt áfram í aðra umferð söluferlis Icelandair Hotels hljóða upp um á 140 til 165 milljónir dala. Í þeim hópi eru Blackstone, asísk hótelkeðja og sameiginlegt tilboð frá Keahótelum og Regin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×