Skoðun

Segðu mér sögu

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Einn af mínum ógleymanlegu fermingarsonum sat við morgun­verðarborðið með móður sinni og það vildi svo til að það var viðtal við mig í morgun­útvarpi. Þegar því var lokið sagði pilturinn: Hún Jóna Hrönn er alltaf að æfa sig í að verða gömul. Af hverju segir þú það? spurði mamman. Hún er alltaf að segja sögur, ansaði hann. Blessaður drengurinn var búinn að sitja hjá mér í fermingarfræðslu og hlýða á biblíusögurnar heilan vetur. Í dæmisögum Jesú er sterkur undirtónn af jákvæðri sálfræði sem varpar ljósi á styrkleika, veikleika, tilfinningar og gildi. Það er t.d. mikilvægt fyrir nútímaunglinga að heyra söguna af manninum sem byggði á bjargi og hinum sem byggði á sandi; það besta í lífinu kostar oft mikla þrautseigju. Sá sem ætlar létt í gegnum lífið missir af því.

Við þekkjum það hvernig sömu sögur eru sífellt endurteknar innan fjölskyldna. Þetta eru sögur af barnsfæðingum, bílakaupum, flutningum, fyndnum tilsvörum barna, gaman- og áfallasögur. Fjölskylda sem hættir að segja sögur gliðnar með tímanum. Sama gildir um þjóðfélagið. Ef sögurnar þagna missir samfélagið af sjálfu sér. Hver einasti fréttatími er sögustund. Minningarorð við jarðarfarir er hluti af sagnahefð okkar. Svo eigum við þjóðsögur, ævintýri, rapptexta og ótal fleiri sagnaform sem hjálpa okkur að skilja lífið. Blái hnötturinn, Gosi og sagan af Ríka bóndanum fjalla um það þegar fólk gleymir raunverulegum lífsgildum og verður græðgi að bráð. Rauðhetta, Vesalingarnir og píslarsaga Krists kenna okkur margt um eðli ofbeldismenningar. Dýrin í Hálsaskógi, hjónaband Hallgerðar og Gunnars á Hlíðarenda og sagan af Týnda syninum varpa ljósi á hefnd og fyrirgefningu … Höldum áfram að segja sögur.




Skoðun

Sjá meira


×