Bjöllunni í Kauphöllinn var hringt fyrir jafnrétti kynjanna í morgun af Sigyn Jónsdóttur, formanni Ungra athafnakvenna. Þetta er í þriðja sinn sem Kauphöllin tekur þátt í sameiginlegum viðburði á heimsvísu á meðal kauphalla fyrir jafnrétti kynjanna á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Viðburðurinn var í samstarfi við UN Women á Íslandi og Samtök atvinnulífsins.

Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður kvenréttindafélags Íslands segir að þessi dagur sé að verða sífellt stærri hér á landi.
„Það stóra sem er að gerast í dag er kvennaverkfall. Alvöru verkfall þar sem konur á lægstu launum í landinu eru að rísa upp og verða með útifund klukkan tólf og á sama tíma verða birtar niðurstöður úr rannsókn um áfallasögu kvenna á Íslandi.
Hún segir að sífellt fleiri haldi daginn hátíðlegan en þetta sé bæði dagur til að fagna sigrum en líka til að minnast þess hvar þurfi áfram að berjast.
„Við þurfum að berjast gegn ofbeldi á konum. Fyrir því að þær geti lifað á sínum launum og fyrir aðgengi fatlaðra kvenna. Þá þarf að berjast fyrir réttindum kvenna að erlendum uppruna. Við viljum meira jafnrétti í landinu, þetta skiptir okkur máli og snertir okkur öll,“ segir Fríða Rós.