Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, setur fram alvarlegar ásakanir í pistli sem Vísir birti í morgun. Hann segir að augljóst misræmi milli dóma megi rekja til þess sem hann kallar „valdabaráttu dómaraklíkunnar við Hæstarétt“.
Hann telur vert að menn hafi þessa stöðu bak við eyrað ef þeir telji sig þurfa að sækja miskabætur á hendur ríkisins.
Jón Steinar ber saman dóma og nefnir þann sem féll í vikunni en þar var Ástu Kristínu Andrésdóttur, sem ranglega hafði verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi, synjað um bætur. Hæstiréttur staðfesti þannig dóm Landsréttar sem gekk á sömu leið fyrir um ári en þá sagði Ásta Kristin það hafa verið mikið áfall fyrir sig. Rannsóknin hefði haft gríðarleg áhrif á mannorð hennar og einkalíf fjölskyldunnar.

En, árið 2017 dæmdi Hæstiréttur íslenska ríkið til að greiða lögmönnunum Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannessyni 700 þúsund krónur í bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar sem þeir urðu fyrir við skipun dómara í Landsrétt. Íslenska ríkið var hins vegar sýknað af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu.
Jón Steinar segir háðskur í pistili sínum að talið hafi verið að gæta þurfi samræmis við beitingu laga í dómaframkvæmd.
„Þegar kenning um það var boðuð mannfólkinu var hins vegar ekki tekið fram að dómstólar mættu víkja frá kröfunni um samræmi þegar þeir teldu nauðsynlegt til að gæta valda sinna við að ákveða hverjir skyldu verða nýir dómarar í landinu. Misræmið sem hér er á ferðinni á því ekki rót að rekja til kímnigáfu dómaranna, eins og menn gætu haldið. Dómarnir frá desember 2017 voru bara afkvæmi valdabaráttu dómaraklíkunnar við Hæstarétt.“
Jón Steinar er þarna með óbeinum hætti að vísa til gagnrýni sem hann hefur áður sett fram á dómara, og þá einkum Markús Sigurbjörnsson, að þeir vilji ráða því alfarið sjálfir hverjir skipast sem slíkir og miskabætur til handa mönnum sem ekki fengu skipan séu skilaboð til ráðherra, að vera ekki að hlutast til um það.