Erlent

Stífla ógnar tilvist órangútanategundar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Wahli-liðar hafa mótmælt stíflunni fyrirhuguðu harðlega.
Wahli-liðar hafa mótmælt stíflunni fyrirhuguðu harðlega. Nordicphotos/AFP
Tapanuli-órangútanar, sú tegund órangútana sem er í einna mestri útrýmingarhættu, eiga nú dauðann vísan eftir að indónesískur dómstóll úrskurðaði fyrirhugaða byggingu stíflu í Batang Toru-skógi á indónesísku eynni Súmötru löglega. Þetta hafði BBC eftir indónesískum dýraverndunarsinnum í gær.

Talið er að einungis 800 tapanuli-órangútanar séu eftir í heiminum. Allir búsettir á þessu sama svæði. Tapanuli-órangútanar voru ekki skilgreindir sem sérstök tegund fyrr en árið 2017 en samkvæmt sérfræðingi við réttarhöldin þýðir bygging stíflunnar nær örugglega útrýmingu tegundarinnar. Að auki búa til dæmis súmötrutígrisdýr og gibbonapar í skóginum.

Dagblaðið Jakarta Post hefur greint frá því að kínverska ríkisfyrirtækið Sinohydro muni reisa stífluna og kínverski ríkisbankinn Zhongguó Yínháng er einn af þeim alþjóðlegu bönkum sem fjármagna verkefnið. Stíflan á að sjá íbúum og fyrirtækjum í Norður-Súmötrufylki fyrir rafmagni og er stefnt að því að ljúka byggingu hennar árið 2022.

Umhverfisverndarsamtökin Wahli höfðu kært byggingu stíflunnar en eins og áður segir var verkefnið metið löglegt. Wahli ætlar að áfrýja úrskurðinum og hefur kallað eftir því að Kínverjar hætti við að fjármagna verkefnið.

BBC hafði eftir Serge Wich, sérfræðingi í verndun prímata, að hann væri steinhissa á því að verkefni sem þetta væri yfirhöfuð á dagskrá. „Þau ætla að byggja stífluna á þeim stað sem flestir órang­útanar búa í skóginum. Þetta er versta mögulega staðsetning,“ sagði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×