Innlent

Eðlilegt að beina sjónum að stjórnvöldum varðandi skatta

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ, kemur hér af fundi þar sem skattatillögur stjórnvalda voru kynntar.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, kemur hér af fundi þar sem skattatillögur stjórnvalda voru kynntar. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
„Skattar eru auðvitað háðir lögum þannig að þetta hlýtur að beinast gegn ríkisvaldinu, hvernig lögum er breytt til að breyta skattbyrði. Við höfum svo sem ekkert farið í það hvort það sé skynsamlegt að hækka eða lækka útsvar,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Alþýðusambandið hefur beint tillögum um breytingar á skattkerfinu til stjórnvalda sem ganga út á að létta skattbyrði lág- og millitekjuhópa og jafnframt lýst yfir vonbrigðum með framkomnar skattatillögur ríkisstjórnarinnar.

Nokkur umræða hefur skapast undanfarið um hlutverk sveitarfélaga þegar kemur að aðgerðum til að liðka fyrir kjarasamningum. Í frétt blaðsins í síðustu viku höfnuðu þau Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, því að sveitarfélög gætu komið að lausn kjarasamninga með skattalækkunum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók undir það sjónarmið í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í gær. Öll þrjú eru þeirrar skoðunar að fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga sé með þeim hætti að ekki sé hægt að lækka tekjur sveitarfélaga nema með því að skerða þjónustu.

Drífa bendir á að þótt sveitarfélögin ákveði útsvarsprósentuna þá ákveði ríkið skiptingu tekna, hámark útsvars og framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. „Þannig er það eðlilegt að beina sjónum sínum að stjórnvöldum.“

ASÍ telji að skoða mætti fjármagnstekjuskattinn þannig að þeir sem komi sér undan tekjuskatti með því að skapa sér fjármagnstekjur greiði líka útsvar. „Það hlýtur að vera svakalegt að vera að reka sveitarfélög og þessi hópur komist hjá því að greiða útsvar. Við höfum bent á það en að öðru leyti finnst okkur skattamálin vera á hendi ríkisins.“

Drífa segir að sveitarfélögin komi þó að málum í gegnum húsnæðis- og lóðamál. „Svo ætlumst við auðvitað til þess, þegar loksins tekst að landa kjarasamningum, að það verði ekki tekið til baka með einhverjum gjaldskrárhækkunum hjá sveitarfélögunum. Við munum fylgjast vel með því eins og verðlagseftirlit okkar ber gott vitni um.“

Miklar annir hafa verið hjá ríkissáttasemjara undanfarna daga en þar hafa farið fram vinnufundir hjá þeim aðilum sem enn sitja við samningaborðið. Þar eru undir þrír hópar sem semja við Samtök atvinnulífsins (SA). Þeir eru Starfsgreinasambandið, Landssamband íslenskra verslunarmanna og samflot iðnaðarmanna.

„Þetta hefur bara unnist ágætlega og viðræðurnar líka. Við munum svo taka alla næstu viku og þess vegna lengur ef þarf,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari en aðilar funduðu alla helgina.

Bryndís segir að væntanlega verði fundur í deilu SA og Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur á fimmtudag. Ekki sé búið að boða hann formlega en aðilar verði að hittast innan fjórtán daga frá við­ræðu­slitum en sá tímapunktur er á fimmtudag.

„Það verður bara að koma í ljós hvað gerist á þeim fundi. Ég tek allavega stöðuna á málinu.“




Tengdar fréttir

Meirihlutinn styður verkföll

Um þriðjungur er andvígur fyrirhuguðum verkföllum en rúmur helmingur fylgjandi. Formaður VR vonar að samningar náist áður en til þeirra kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×