Erlent

Erfiðar kosningar bíða Netanjahús

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Benny Gantz gæti hirt forsætisráðuneytið af Netanjahú.
Benny Gantz gæti hirt forsætisráðuneytið af Netanjahú. Vísir/EPA
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og flokkur hans Líkúd eiga erfiðar kosningar í vændum. Væntanlegar spillingar­ákærur gegn forsetanum gætu gert stöðuna enn erfiðari og kosningabandalagið Kahol Lavan, undir stjórn fyrrverandi herforingjans Benjamíns Gantz, er í stórsókn.

Ekki er búist við því að Netanjahú mæti fyrir dóm til að skýra mál sitt fyrr en eftir kosningar. Ríkissaksóknari Ísraels greindi frá því í vikunni að hann hygðist ákæra hann fyrir þrjú mál og verður leiðtoginn meðal annars sakaður um mútuþægni og fjársvik.

Málin munu því vofa yfir alla kosningabaráttuna. Í gær, á fyrsta degi eftir yfirlýsingu saksóknarans, safnaðist fjöldi mótmælenda saman fyrir utan heimili Netanjahús, að því er Reuters greindi frá.

Ný könnun ísraelska miðilsins Kan sýndi að Líkúd fengi 29 þingsæti af 120 ef kosið væri í dag. Kahol Lavan-bandalagið fengi hins vegar 37. Þetta væru tveir stærstu flokkarnir en kosningarnar fara fram þann 9. apríl. Vert er að nefna að Líkúd fékk 30 þingsæti í síðustu kosningum en þeir flokkar sem tilheyra Kahol Lavan nú og buðu fram fengu ellefu.

Yuval Steinitz, ráðherra í stjórn Líkúd, sagði við útvarpsstöð í Tel Avív að hann væri fullviss um að Netanjahú væri fær um að stýra ríkinu áfram „þrátt fyrir þrýstinginn“ og benti á að Ariel Sharon hefði sigrað í kosningum þrátt fyrir álíka mál.

Alon Visser úr Verkamannaflokknum var ekki sammála. „Þetta er svartur dagur í sögu Ísraels. Við skömmumst okkar fyrir forsætisráðherrann okkar og köllum saman eftir afsögn hans.“




Tengdar fréttir

Netanjahú ákærður fyrir spillingu

Lögmönnum forsætisráðherra Ísraels hefur verið tjáð að hann verði ákærður fyrir mútur, fjársvik og trúnaðarbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×